Hafi sætt „ofbeldi, ofsa og yfirgangi“

Teigsskógur í Reykhólasveit.
Teigsskógur í Reykhólasveit. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarstjórnarmenn voru ómyrkir í máli í bókunum sínum á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps í dag þegar tekin var ákvörðun um að auglýsa aðalskipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir Teigskógarleið, leið Þ-H, vegna vegagerðar á Vestfjarðavegi 60. Þar með hafnaði sveitarstjórnin svokallaðri R-leið um Reykjanes og yfir Þorskafjörð utanverðan.

Tillaga Ingimars Ingimarssonar, oddvita Reykhólahrepps, um íbúakosningu um legu vegarins gegnum Reykhólahrepp var hafnað og var hann sá eini er greiddi atkvæði með tillögunni, þrír greiddu atkvæði á móti og einn sat hjá.

Sveitarstjórnarmenn deildu um hvort farin yrði leið Þ-H eða leið …
Sveitarstjórnarmenn deildu um hvort farin yrði leið Þ-H eða leið R. mbl.is

„Það eru mikil vonbrigði að sveitarstjórnarfólk Reykhólahrepps skuli ekki taka undir með tillögu um íbúakosningu. Íbúakosning er besti mælikvarðinn sem við höfum til að mæla hug íbúa í eins stóru máli og þessu. Það að hafna íbúalýðræði í svo stóru máli er mikið ábyrgðarmál,“ segir í bókun Ingimars vegna höfnunar tillögunnar.

Skipulagsvaldið í raun tekið af sveitarfélaginu

Í framhaldinu lögðu þær Árný Huld Haraldsdóttir varaoddviti og Jóhanna Ösp Einarsdóttir fram bókanir, en nokkrir sveitarstjórnarfulltrúanna telja að skipulagsvald hafi í raun verið tekið af sveitarfélaginu í málinu.  

„Ég hef lagt mig fram um að skoða allar teiknaðar leiðir vel og vandlega og hef fundið kosti og galla hverrar leiðar en hef í rauninni ekki val. Ég hefði viljað að sveitarfélagið myndi bjóða upp á íbúakosningu þannig að ef meirihluti íbúa myndi taka þátt í slíkri kosningu yrði hún bindandi en tel að um leið og skipulagsvaldið var tekið af sveitarstjórn hafi einnig verið lokað á lýðræðislega íbúakosningu. Skipulagsvaldið í þessu máli er ekki okkar heldur formsatriði til að uppfylla,“ sagði í bókun Árnýjar Huldar. 

„Ég er fylgjandi íbúalýðræði, en þar sem sveitarfélaginu hafa verið settar fjárhagslegar skorður og skýrt tekið fram af stjórnvöldum að aðeins ein leið sé fær þá gildir það jafnt um sveitarstjórn sem íbúa,“ sagði í bókun Jóhönnu Aspar.

Því næst var borin undir fundinn tillaga um að leið Þ-H yrði valin og var hún samþykkt sem fyrr sagði og lýstu þá fundarmenn afstöðu sinni til niðurstöðunnar. 

Skoðuð verði réttarstaðan gagnvart Vegagerðinni

Árný Huld, flutningsmaður tillögunnar, bókaði að hún teldi sig ekki hafa raunverulegt val um hvaða leið yrði farin, líkt og áður hafði komið fram. Raunverulegt skipulagsvald hafi Vegagerðin tekið af sveitarstjórn Reykhólahrepps. 

„Ég hefði viljað að sveitarfélagið myndi bjóða upp á íbúakosningu þannig að ef meirihluti íbúa myndi taka þátt í slíkri kosningu yrði hún bindandi en tel að um leið og skipulagsvaldið var tekið af sveitarstjórn hafi einnig verið lokað á lýðræðislega íbúakosningu. Skipulagsvaldið í þessu máli er ekki okkar heldur formsatriði til að uppfylla,“ sagði í bókun hennar.

„Á fundum sem ég hef sótt með Vegagerð Ríkisins og samgönguráðherra mátti skilja að búið sé að ákveða skipulagið fyrir sveitarstjórn Reykhólahrepps. Á fundinum var farið yfir það að ein leið sé í boði og verði hún ekki farin verði engin leið farin og fjármagnið verði flutt í önnur verkefni. Þessi leið er svokölluð Þ-H leið um Vestfjarðaveg (60),“ bókaði Árný Huld.

Að lokum benti hún á alvarleika þess að skipulagsvaldið væri tekið af sveitarfélögum. „Legg ég þá til að skoðað verði með lögfræðingum sveitarfélagsins hvort lögð verði fram stjórnsýslukæra þess efnis á hendur Vegagerðinni,“ sagði Árný Huld.

Harma framgöngu nærliggjandi sveitarfélaga

Þær Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Embla Dögg B. Jónasdóttir samþykktu tillöguna um leið Þ-H, meðal annars með vísan til þess að leið R uppfyllti ekki staðla um umferðaröryggi og væri því ekki fær. Einnig gagnrýndu þær að sveitarfélaginu hefðu verið settar fjárhagslegar skorður við leiðarvalið og að þær litu svo á að það hefði ekki raunverulegt val um leið. 

„Að lokum langar okkur að taka fram að við hörmum framgöngu nærliggjandi sveitarfélaga í þessu ferli, þar sem fram hefur komið yfirgangur, ásamt miklum þrýstingi á sveitarfélag sem er að uppfylla skyldu sína um rannsóknarvinnu í aðalskipulagsbreytingu. Sveitarfélögin sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau harma rof á samstöðu í stað þess að sýna Reykhólahrepp[i] samstöðu í þessu ferli,“ sagði einnig í bókun þeirra.

„Hótanir, kúgun og áburður borið tilætlaðan árangur“

Oddvitinn, Ingimar, lagði að lokum fram bókun um málið. 

Undirritaður lýsir vonbrigðum sínum yfir leiðarvali meirihlutans. Ljóst er að hótanir, kúgun og áburður Vegagerðarinnar, nágrannasveitarfélaga og fjórðungssambandsins hafa borið tilætlaðan árangur. Málið hefur setið botnfrosið í 17 ár og litlar líkur á að það breytist í bráð. Í ljósi sögunnar hlýtur öllum að vera ljóst að Teigskógarleið verður seint eða aldrei farin. Loksins þegar sá fyrir endann á áratuga deilum, með leið sem sætti sjónarmið vegagerðar, samfélagsáhrifa og náttúrverndar, keyrir vegagerðin, nágrannar okkar og fjórðungssambandið, sem við erum enn hluti af, með ofbeldi og ofsa gagnvart okkur. Teigskógur skal það vera.“ 

Því næst vísaði Ingimar til skyldna sveitarstjórnarmanna gagnvart sveitarfélaginu og sagði það ábyrgðarhluta að veljast í sveitarstjórn.

„Þá samfélagsábyrgð ber að taka alvarlega, líka þegar að okkur er vegið. Sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga í skipulagsmálum er óumdeildur, það eru því léttvæg rök að segja að við séum neydd til einhvers. Við erum ekki neydd til þess að lúta valdi [V]egagerðarinnar, við erum kosin af íbúum Reykhólahrepps til þess að fara með stjórn sveitarfélagsins og fara með skipulagsvaldið. Vegagerðin er ekki kosin af fólki til þess að fara með skipulagsvald, [V]egagerðin fer ekki með skipulagsvald,“ bókaði hann.

„Þau umhverfisáhrif sem Teigskógarleiðin mun hafa eru gríðarleg og óafturkræf það dylst engum. Það eru því litlar líkur á því að sú leið verði nokkurn tímann að veruleika. Þetta vita fulltrúar [V]egagerðarinnar, þetta veit ráðherra, samt skal haldið áfram og reynt. Nú á að gera Reykhólahrepp að tilraunastöð fyrir umhverfisofbeldi [V]egagerðarinnar með stuðningi [s]amgönguráðherra í þeim eina tilgangi að athuga hversu langt þeir komast. Leitt þykir mér að sveitarstjórnarfulltrúar Reykhólahrepps skuli ætla að vera tilraunadýr Vegagerðarinnar í þessu máli. Málatilbúnaður þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í landi Teigskóga hefur aldrei verið sterkari enda þeim verið gefi[n] upp í hendurnar hálfranns[ökuð] leið sem þjónustustofnun ríkisins, Vegagerðin, hefur neitað að rannsaka, ásamt því að stilla sveitarstjórn upp við vegg með hótunum. Vegferð Þ-H leiðarfólks verður því flókin og erfið,“ bókaði Ingimar.

Hér má finna fundargerð sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá fundinum í dag í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert