Sjáum slaka í félagslegu taumhaldi

46% framhaldsskólanema hafa aldrei orðið ölvuð. Sú tala helst óbreytt …
46% framhaldsskólanema hafa aldrei orðið ölvuð. Sú tala helst óbreytt frá 2016 eftir að hafa farið hækkandi frá árinu 2000. Mynd úr safni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Samvera grunnskólabarna í 9. og 10. bekk á Akureyri með foreldrum sínum mældist örlítið undir landsmeðaltali í könnun sem Rannsóknir og greining gerðu í fyrra. Þannig sögðust 38% drengja á Akureyri oft eða nær alltaf vera með foreldrum sínum utan skólatíma á virkum dögum og 40% stúlkna, en landsmeðaltalið fyrir kynin var 45% og 50%.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, kennari á íþróttafræðisviði Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, segir ástæðuna m.a. geta verið þá að samsetning samfélaga á landsbyggðinni geti verið önnur en á höfuðborgarsvæðinu, sem vegi þungt í könnun sem þessari.

„Það er virkt og gott íþróttastarf á Akureyri,“ segir Margrét Lilja og kveður grunn- og framhaldsskólanema á Akureyri annars koma svipað út og ungmenni annars staðar, til að mynda varðandi neyslu áfengis og fíkniefna.

Haldið var málþing um unga fólkið í Hofi nú síðdegis, sem ber yfirskriftina „Hvert erum við að stefna?“ og hélt Margrét Lilja þar fyrirlestur um íslenska forvarnamódelið og kynnti niðurstöður úr könnunum sem Rannsóknir og greining lögðu fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur í febrúar í fyrra.

„Það sem við sjáum, og alltaf er gott að minna á, er að við höfum náð frábærum árangri er kemur að vímuefnaneyslu, sér í lagi áfengisneyslu í efstu bekkjum grunnskóla,“ segir Margrét Lilja. Könnunin sýnir þó um 1% aukningu í áfengis- og marijúananeyslu 10. bekkinga á landsvísu milli áranna 2017 og 2018. Þannig höfðu 7% nemenda orðið drukkin sl. 30 daga í könnuninni í fyrra, en 6% árið áður og 6% höfðu neytt marijúana en 5% árið 2017. 

Dregur úr samveru foreldra og barna

„Í febrúar 2018 sjáum við svo ákveðin slaka í félagslegu taumhaldi,“ segir Margrét Lilja og vísar þar til þess að það dragi úr samveru barna og foreldra milli kannana.

Árið  2016 voru 55% stúlkna í 9. og 10. bekk oft eða nær alltaf með foreldrum sínum utan skólatíma á virkum dögum og 51% stráka. Í könnuninni í fyrra var hlutfallið hins vegar 51% og 47%. Minni breyting var á fjölda þeirra sem voru með foreldrum sínum um helgar. Það gerðu 67% stúlkna nú og 64% pilta, en 2016 var hlutfallið  69% og 66%.

„Við vitum það að um leið og við sjáum minni samveru með foreldrum, minna taumhald og að foreldrar viti síður hvar börnin eru, þá sjáum við ákveðið stökk og tölurnar fara upp á við,“ segir hún. „Við skynjum það núna víða í samfélaginu að fólk hefur áhyggjur og það hafa verið að koma upp fleiri dæmi um neyslu og ölvun á skólaballi svo dæmi séu tekin.“

Unglingar hafa þó að hennar sögn ekki breyst neitt frá því að hún var sjálf ung. „Það sem hefur breyst er umhverfið. Um leið og við hættum að hlúa að því og halda í alla spotta, þá sjáum við krakkana fara þangað sem við viljum ekki að þau fari. Það er þetta sem við erum að brýna fyrir fólki núna,“ segir Margrét Lilja og bætir við að þessum skilaboðum sé aldrei komið of oft á framfæri. 

„Við fáum stöðugt nýja og nýja foreldra sem hafa ekki hugmynd um hver staðan var og hvað þeirra nærvera skiptir miklu máli.“

Árið 2016 voru 51% stráka í 9. og 10 bekk …
Árið 2016 voru 51% stráka í 9. og 10 bekk oft eða nær alltaf með foreldrum sínum utan skólatíma á virkum dögum. Í könnuninni í fyrra var hlutfallið 47%. Mynd úr safni. Getty Images

Dregur úr ölvun og marijúananeyslu

Í könnuninni sem tók til framhaldsskólanema kemur fram að 46% framhaldsskólanema hafa aldrei orðið ölvuð. Sú tala helst óbreytt frá 2016 eftir að hafa fram að því farið hækkandi frá árinu 2000. Það heldur hins vegar áfram að draga úr fjölda þeirra framhaldsskólanema sem hafa orðið ölvaðir sl. 30 daga og eins dregur úr marijúananeyslu hjá þessum hópi. Þannig höfðu í fyrra 35% framhaldsskólanema orðið ölvuð sl. 30 daga, borið saman við 38% árið 2016. Í fyrra höfðu 17% framhaldsskólanema notað marijúana einu sinni eða oftar um ævina, en 2016 var talan 18%.

Rafrettunotkun heldur hins vegar áfram að aukast líkt og áður hefur verið greint frá. 2018 höfðu 62,2% framhaldsskólanema reykt rafrettur einu sinni eða oftar, en 2016 var hlutfallið 48,9%. Eins var fjölgun líka í hópi þeirra sem aldrei höfðu reykt sígarettur, en höfðu prófað að reykja rafrettur.

„Rafrettur eru eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af alls staðar,“ segir Margrét Lilja og bætir við að lítið sé enn vitað um þær. „Þær eru líka eitthvað sem við viljum ekki að börnin okkar séu að ánetjast burtséð frá því hvað okkur finnst um að skipta sígarettum út fyrir rafrettur.“Mikill meirihluta hefur ekki notað lyfseðilsskyld lyf

Könnunin sýnir líka að um 90% framhaldsskólanema á Íslandi hafa aldrei notað lyfseðilsskyld lyf, hvorki örvandi, róandi, né ópíóða, án lyfseðils, sem hljóta að teljast góðar fréttir í ljósi umræðu um aukna notkun slíkra lyfja.

Í þessu sambandi segir Margrét Lilja þá miklu umræðu sem hefur verið um læknadóp geta verið hættulega. „Yfirgnæfandi meirihluta nemenda í framhaldsskólum hefur aldrei notað lyfsseðilsskyld lyf sem þeim var ekki ávísað,“ segir hún. Lesi þeir hins vegar stöðugt fréttir um að „allir“ séu að nota slík lyf sé hætta á að þeim fari að líða sem fráviki, jafnvel þó að þeir tilheyri meirihlutanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina