Skilur ekki af hverju hann er ákærður

Frá aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Frá aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert

Aðkoma Kjartans Bergs Jónssonar að því máli, sem nú er til aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, er afar takmörkuð, að hans eigin sögn, en hann gaf skýrslu núna eftir hádegið og sagðist þar meðal annars ekki einu sinni skilja þann lið ákærunnar sem beinist að honum.

Kjartan Bergur er ákærður fyrir hlutdeild í innherjasvikum fyrir að hafa, á grundvelli innherjaupplýsinga innan úr Icelandair, sem Kristján Georg Jósteinsson er sagður hafa látið honum í té, gert valréttarsamkomulag við Arion banka, sem byggði á verðþróun hlutabréfa Icelandair Group.

„Mér finnst eins og ég sé ekki ákærður fyrir viðskiptin mín heldur fyrir viðskiptin hans Kristjáns,“ sagði Kjartan Bergur við dóminn, en viðskipti Kjartans Bergs voru gerð 30. janúar 2017 og vörðuðu fimm milljónir hluta í Icelandair Group hf. Samkvæmt ákæru í málinu skiluðu viðskiptin honum yfir tuttugu milljóna króna hagnaði.

Kjartan Bergur segist ekkert þekkja nafna sinn, fyrrverandi forstöðumanninn hjá Icelandair, sem ákærður er í málinu.

Þeir fóru þó í sömu ferð á UFC-bardagakvöld í Belfast á Norður-Írlandi í nóvember 2016, þar sem Gunnar Nelson átti að vera að berjast, en þurfti frá að hverfa vegna meiðsla.

Fram kom í framburði þeirra beggja að þeir hefðu rekist á hvor annan þar, meðal annars í flugvélinni á leið heim, en samskipti þeirra síðan hefðu verið lítil sem engin.

Fór með mynd af símaskjá beint í bankann

Viðskiptin komu þannig til að Kjartan Bergur hitti vin sinn Kristján Georg í hádegismat á veitingastað í Reykjavík og fékk þar að heyra af góðum „díl“ sem Kristján var að gera. Kjartan Bergur var áhugasamur um að gera eins samning, svo hann tók mynd af skjánum á síma Kristjáns þar sem skilmálar afleiðusamningins voru sýndir.

„Ég tók mynd af honum, af því ég vildi gera eins,“ sagði Kjartan Bergur fyrir dóminum, en þeir Kristján Georg höfðu að hans sögn setið saman yfir mat og rætt stöðu íslensku krónunnar og annað viðskiptatengt.

Kjartan Bergur sagðist þó ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá Kristjáni Georg, sem hefðu komið frá Kjartani, sem starfaði sem forstöðumaður Icelandair á þessum tíma og er ákærður fyrir að hafa veitt Kristjáni innherjaupplýsingar.

Hann hefði einfaldlega heyrt af góðum samningi og viljað gera eins, en Kjartan Bergur er sjálfur í fyrirtækjarekstri þar sem tekjurnar koma að miklu leyti í erlendri mynt. Hann sagði fyrir dómi að þar sem íslenska krónan hefði hækkað, hefði hann búist við því að Icelandair væri líka í erfiðri stöðu, og að ákvörðun hans um að gera þessi viðskipti hefði meðal annars byggst á því. 

Kristján Georg liðsinnti Kjartani Bergi við að loka afleiðusamningnum sem hann gerði, 6. febrúar 2017, sex dögum eftir að Icelandair sendi frá sér afkomuviðvörun, með yfir tuttugu milljóna króna hagnaði, sem áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert