„Það er ekki auðvelt að ganga úr ESB“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ég held að öllum þeim sé ljóst sem hér hafa talað í fullri alvöru um að gott væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið að þeir geta aldrei aftur notað þá röksemd, sem öllum var ljóst að var fráleit en var samt notuð, að það sé ekkert mál að ganga í Evrópusambandið af því að það er svo auðvelt að ganga úr því aftur ef mönnum líkar ekki dvölin.

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma þar sem umtalsefnið var útganga Bretlands úr Evrópusambandinu. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði vandræðagang Breta við að koma sér saman um hvernig skuli ganga úr sambandinu vera tragikómískan.

„Ég geri ráð fyrir því að þeir aðilar sem eru í flokki sem var sérstaklega með Evrópusambandsflaggið á öllum borðum á landsfundi sínum muni aldrei segja neitt slíkt aftur. Ég held að við hljótum að geta treyst því. Er það ekki, virðulegi forseti? Það er ekki auðvelt að ganga úr Evrópusambandinu,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur.

Jón Steindór spurði hvernig gengi að tryggja hagsmuni Íslendinga gagnvart útgöngu Bretlands og sagði utanríkisráðherra stjórnvöld hafa kortlagt hagsmuni Íslands og reynt að búa landið undir allar þær stöður sem komið gætu upp.

„Við reynum að tryggja íslenska hagsmuni eins mikið og mögulegt er við hverjar þær aðstæður sem upp koma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert