Bannað verði að afhenda plastpoka

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá og með 1. janúar 2021 verður óheimilt fyrir verslanir að afhenda viðskiptavinum sínum burðarpoka úr plasti verði frumvarp til laga um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti fyrir á Alþingi í dag, að lögum. Einnig er lagt til að frá og með 1. júlí 2019 verði óheimilt að afhenda alla burðarpoka án endurgjalds þar sem vörur eru seldar.

„Banni við burðarplastpokum er ekki ætlað að vera allsherjarlausn á plastvandamálinu, heldur ein aðgerð af mörgum. Verkefnið fram undan er umfangsmikið og ýmiss konar lausnir nauðsynlegar, plastpokarnir eru þar einungis eitt skref. Hér er hins vegar um mikilvægan áfanga að ræða. Með því að banna plastpoka tökumst við á við það mikla magn plastpoka sem er í umferð en höfum um leið víðtækari áhrif. Aðgerðin snertir daglegt líf okkar og eykur vitund okkar um plast og notkun þess. Þetta virkjar okkur með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts,“ er haft eftir Guðmundi í fréttatilkynningu.

Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópusambandsins sem ætlað er að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti. Hins vegar gengur frumvarpið lengra en lágmarkskröfur tilskipunarinnar gera ráð fyrir. Þannig er ríkjum til að mynda heimilt að undanskilja þynnstu pokana. Þau séu þó hvött til að gera það ekki og verður Ísland við því.

Nánar um frumvarpið

mbl.is

Bloggað um fréttina