Fangelsi án múra og girðinga

Kirkjufell.
Kirkjufell. mbl.is/RAX

Prófessor í afbrotafræði við háskólann í Portsmouth, Francis Pakes, óskaði eftir því að fá að dvelja í tveimur íslenskum fangelsum og fékk til þess heimild frá yfirvöldum. Hann segir opin fangelsi á Íslandi einstök og það sé hans tilfinning að tilvist þeirra eigi rétt á sér. 

Pakes lýsti því nýverið í grein hvernig upplifun hans er af opnum fangelsum á Íslandi en hann mun flytja erindi á fundi í Háskóla Íslands í hádeginu í dag.

Í grein sinni segir Pakes að á Íslandi séu fangelsin fimm talsins og að þau séu lítil líkt og landið. Færri en 200 fangar séu í afplánunum í fangelsum landsins en af þeim eru tvö opin fangelsi. Hann hafi heimsótt þau áður og litist vel á og viljað kynnast þeim betur. 

Pakes kom að máli við Pál Winkel fangelsismálastjóra og óskaði eftir heimild til þess að dvelja á Kvíabryggju og Sogni og tók Páll vel í hugmynd hans. 

Dr. Francic Pakes, prófessor í afbrotafræði við University of Portsmouth.
Dr. Francic Pakes, prófessor í afbrotafræði við University of Portsmouth. Af vef Háskóla Íslands

„Þau hétu því að taka frá herbergi fyrir mig. Ég var bæði þakklátur og spenntur. Ég myndi upplifa dvöl innan veggja fangelsis. Á sama tíma og ég vissi að þau væru róleg og örugg þá væru vistaðir þar fangar sem hefðu verið dæmdir fyrir alvarleg ofbeldis- og kynferðisbrot. Hvernig virka eiginlega fangelsi án múra og öryggisgirðinga?“ spyr Pakes sjálfan sig í greininni.

Hann segir að íslenskum opnum fangelsum sé best lýst með því að þau eru mjög opin. Engar öryggisgirðingar og lítið sem ekkert um afgirt svæði. Þar sé aftur á móti skilti þar sem ókunnugir eru beðnir um að halda sig fjarri. Skiltinu sé einkum beint að ferðamönnum. 

Á Kvíabryggju sé um samvinnu milli fanga og starfsfólks að ræða. Matur skipti miklu máli í fangelsum og á Kvíabryggju sé meginrýmið borðstofan. Þar borða fangar þrjár máltíðir á dag með fangavörðum og fangar eldi ásamt því að fara einu sinni í viku í matvörubúð undir eftirliti fangavarðar. Maturinn sé góður og það þyki eðlilegur siður að þakka kokkinum fyrir máltíðina. Eins er hverjum og einum gert að ganga frá eftir sig.

Hver fangi hafi sitt herbergi og þar hafa þeir aðgang að neti, með ákveðnum takmörkunum, og farsíma. Pakes segir að margir af yngri föngunum haldi sig mikið inni í sínu herbergi og að hver fangi hafi lykil að sínu herbergi. En yfirleitt séu herbergin ólæst enda snúist lífið á Kvíabryggju um traust. 

„Mér fannst þetta óþægilegt í fyrstu vitandi að vegabréfið mitt, lykillinn að bílaleigubílnum og rannsóknargögn mín voru inni í herberginu. En undir lokin gerði ég eins og aðrir fangar og svaf jafnvel með hurðina ólæsta. Ég svaf eins og barn og þegar ég leit út um gluggann á hverjum morgni sá ég kindur, gras og snævi þakta fjallstinda,“ skrifar Pakes.

Að sögn Pakes voru það óformlegheitin í samskiptum fanga og starfsfólks sem snertu hann mest. „Við horfðum á fótbolta saman. Í stað þess að vera feimnir eða flóttalegir sá ég kynferðisbrotamenn æpa að skjánum þegar Ísland spilaði. Fangar í viðkvæmri stöðu grínuðust með eiturlyfjasölum. Ég sá vafasama fíkniefnaneytendur spjalla og hlæja með starfsfólkinu. Og mér fannst ég passa inn, bæði sem rannsakandi sem og manneskja. Mér var að sjálfsögðu strítt líkt og alltaf er gert við afbrotafræðinga. En fangarnir deildu einnig slúðri með mér og margir fangar og starfsmenn deildu mjög persónulegum og jafnvel innilegum tilfinningum og sögum með mér,“ segir Pakes.

Kvíabryggja er að sjálfsögðu fangelsi þrátt fyrir allt, segir Pakes og margir fangarnir glíma við vandamál, reiði og áhyggjur af framtíð sinni og heilsu. En umhverfið er öruggt og maturinn góður sem skiptir miklu segir hann.

Hann segir íslensku opnu fangelsin einstök. Hvort það sé vegna smæðar þeirra eða hversu fámenn þau eru veit hann ekki. Náttúran í kring geti líka haft sitt að segja og þær aðstæður sem Íslendingar hafa búið við mann fram af manni. Að fólk þarf að treysta á aðra í því verðurfari sem ríki á þessum slóðum. Hvað sem það er þá virðist það ganga upp segir Pakes.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Hari

Páll Winkel segir að Francis Pakes hafi komið á hans fund og lýst verkefninu.

„Í ljósi þess að hann er virtur sérfræðingur á sviði afbrotafræði ákváðum við að samþykkja beiðni hans. Ég tel grein hans ákaflega vandaða og hann hefur skynjað umhverfið og áherslur okkar mjög vel. Við leggjum áherslu á gagnkvæma virðingu í samskiptum fanga og fangavarða auk þess sem föngum í opnum fangelsum er sýnt ákveðið traust. 

Við leggjum mikla áherslu á stigskipta afplánun fangelsisrefsinga þannig að fangar eiga þess kost að vinna sig upp með góðri hegðan. Þannig hefja allir fangar afplánun í lokuðu fangelsi en geta með góðri hegðan áunnið sér rétt til vistunar í opnum fangelsum þar sem aðstæður eru betri eins og Pakes bendir á. Á það við um alla brotaflokka,“ segir Páll.

Gangi afplánun vel í opnu fangelsi fara fangar úr opnum fangelsum á áfangaheimili þar sem fangar taka þátt í samfélaginu með vinnu eða námi en þurfa að mæta að kveldi á áfangaheimilið, segir hann. 

„Gangi allt vel þar ljúka fangar afplánun heima hjá sér með ökklaband. Með þessu fyrirkomulagi gefst föngum kostur á að aðlagast samfélaginu hægt og örugglega aftur og þannig er dregið úr líkum á því að fangar brjóti af sér aftur. Árangurinn hefur verið góður enda hefur endurkomutíðni lækkað auk þess sem við erum með mjög fáa fanga á hverja 100.000 íbúa miðað við önnur lönd,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Dr. Francis Pakes mun ræða reynslu Breta, Hollendinga og Norðmanna af endurhæfingu og endurkomu fanga í samfélög eftir refsivist. Hvað skiptir þar máli eigi árangur að nást? Auk þess sem hann mun ræða reynslu sína af dvöl í tveimur opnum fangelsum á Íslandi á fundinum í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert