Leynd yfir nýrri stjórn Zúista

Ágúst Arnar Ágústsson lætur af starfi forstöðumanns Zúista. Ekki er …
Ágúst Arnar Ágústsson lætur af starfi forstöðumanns Zúista. Ekki er vitað hverjir munu sjá um ráðningu arftaka hans. Ljósmynd/Aðsend

Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zúista, lætur af störfum á næstunni og verður auglýst eftir nýjum forstöðumanni félagsins, að því er segir í tilkynningu til fjölmiðla. Ekki fæst upp gefið hverjir sitja í stjórn félagsins, en það mun falla í hlut þeirra að ráða nýjan forstöðumann.

Þá segir í tilkynningunni að síðasti aðalfundur félagsins hafi verið haldinn í september síðastliðnum og að ný stjórn hafi tekið til starfa um áramótin.

Þegar leitað er til núverandi forstöðumanns til þess að afla upplýsinga um hverjir hlutu kjör á aðalfundi félags Zúista sem haldinn var í september, var svarað með því að vísa til stjórnar. „Þetta er tilkynning frá fráfarandi stjórn, ekki félaginu sjálfu. Ný stjórn mun að eigin ósk sjá um að kynna sig ásamt forstöðumanni,“ segir í svari Ágústs Arnars við fyrirspurn mbl.is.

Ekkert vitað um aðalfundinn

Sýslumannsembættið á Norðurlandi eystra, sem annast skráningu og eftirlit með skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum segist vita að aðalfundur Zúista hafi verið auglýstur með átta daga fyrirvara.

Hins vegar er ekkert vitað hverjir hafi sótt aðalfundinn, hverjir hafi hlotið kjör og hvort aðalfundurinn hafi yfir höfuð verið haldinn.

Trúfélagið var endurreist árið 2015 til þess að endurgreiða félagsmönnum sóknargjöld. Þáverandi stjórn félagsins reyndist hins vegar ekki lögleg og fór stjórn félagsins til Ágústs og ríkti leynd yfir end­ur­greiðslum sókn­ar­gjalda 2017 og voru þær lítið aug­lýst­ar, svo marg­ir töldu sig hafa farið á mis við þær.

Ekki er vitað hver staðan er með endurgreiðslur vegna sóknargjalda síðasta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert