Hótuðu að búta brotaþola niður

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Tveir Akureyringar voru dæmdir í 12 og 15 mánaða fangelsi í síðustu viku fyrir rán og sérstaklega hættulega líkamsárás á bak við Nætursöluna við Strandgötu í október 2017. Árásarmennirnir hótuðu að nota fórnarlambið í vændi, fara með hann út í sveit, drepa hann, búta niður og fleygja honum út í skurð, drepa dóttur hans með því að henda molotov-kokteil inn um herbergisglugga hennar og drepa fyrrverandi konu hans sem þeir hafi sagst vita hvar byggi.

Ari Rúnarsson var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi og til að greiða rúma eina milljón í sakarkostnað auk þess að greiða ásamt félaga sínum, Marvin Haukdal Einarssyni, sem fékk eins árs dóm, rúmar 400 þúsund krónur í sakarkostnað og fórnarlambi þeirra félaga 600 þúsund krónur í miskabætur. Marvin var einnig gert að greiða tæplega 800 þúsund krónur í sakarkostnað. 

Upp úr klukkan átta að kvöldi 9. október 2017 barst lögreglu tilkynning um slagsmál á bak við Nætursöluna við Strandgötu. Þar var enginn er lögregla kom á staðinn en lögregla litaðist um og veitti fljótlega athygli þremur mönnum ganga norður Ráðhústorg fyrir framan Kaffi Amor. Þau þekktu ákærðu báða og vakti athygli að brotaþoli var á stuttermabol þrátt fyrir að kalt væri. Lögregla hitti þá vestan við Strandgötu 3 og gaf sig á tal við þá. Það blæddi úr höfði brotaþola, sem var einnig blóðugur á höndum og virtist hræddur. Ákærðu voru æstir og í annarlegu ástandi. Eftir stutt samtal við þá alla voru ákærðu handteknir og brotaþoli fluttur á slysadeild.

Fyrir dómi kom fram í máli brotaþola að Ari hafi komið þangað sem hann bjó á þessum tíma. Hann hafi legið í fráhvörfum og verið búinn að ákveða að hætta fíkniefnaneyslu. Ari hafi verið æstur og ásakað hann um þjófnað. Hann hafi farið um allt í leit að dópi og haft uppi stöðugar hótanir. Þar hafi hann tekið vegabréf fyrrverandi konu brotaþola úr tösku hennar. Hann hafi einnig tekið síma hennar en þó látið brotaþola geyma hann í fyrstu.

Brotaþoli hafi farið með Ara en ætlun Ara hafi verið að nota brotaþola til að komast inn til félaga þeirra til að ræna hann. Þeir hafi farið í Nætursöluna til að hitta Marvin. Við hliðina á Nætursölunni hafi Ari og Marvin bæði kýlt hann og slegið. Þeir hafi svo farið á bak við Nætursöluna og þar hafi Ari og Marvin „snappað“.

Þeir hafi talað um hvað þeir ætluðu að gera við hann svo sem að nota hann í vændi, fara með hann út í sveit, drepa hann, búta niður og fleygja honum út í skurð, drepa dóttur hans með því að henda molotov-kokteil inn um herbergisglugga hennar og drepa fyrrverandi konu hans sem þeir hafi sagst vita hvar byggi.

Það hafi verið Marvin sem hótaði að drepa hann, en annars hafi þetta komið frá þeim báðum sem hafi hlegið að þessu. Marvin hafi skyndilega skotið olnboga sínum í vinstra gagnauga hans og Ari í beinu framhaldi lamið hann með flösku í höfuðið. Tvímenningarnir hafi mikið sparkað í fætur hans til að ná honum niður sem þeim hafi þó ekki tekist. Þeir hafi rifið hann úr úlpu og skóm, tekið af honum síma og veski og ætlað með hann í hraðbanka til að taka út peninga. Þeir hafi tekið 4.500 krónur úr veski hans. Hann hafi gengið með þeim á sokkunum, blóðugur og niðurlægður. Lögregla hafi þá komið og stöðvað þetta.

Brotaþoli bar að sér hafi liðið mjög illa eftir þetta og þurft á kvíðalyfjum og sálfræðiaðstoð að halda. Hann hafi tekið hótanir þeirra mjög alvarlega og forðist Akureyri af  hræðslu við þá. Brotaþoli kvaðst stundum fá höfuðverki sem hann tengi árásinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert