Ragnar Þór sjálfkjörinn formaður

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/​Hari

Ragnar Þór Ingólfsson var sá eini sem bauð sig fram til formanns VR og er hann því sjálfkjörinn formaður stéttarfélagsins.  

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Framboðsfrestur vegna formanns- og stjórnarkjörs VR rann út á hádegi í dag. Ragnar Þór tók við formennsku í VR fyrir tveimur árum.

„Kjörstjórn VR hefur úrskurðað eitt einstaklingsframboð til formanns VR fyrir kjörtímabilið 2019-2021 löglega fram borið en það er framboð Ragnars Þór Ingólfssonar og er hann því sjálfkjörinn formaður VR til næstu tveggja ára. Önnur framboð til formanns bárust ekki,“ segir í tilkynningunni.

Kjörstjórn VR hefur fengið 16 einstaklingsframboð til stjórnar VR fyrir kjörtímabilið 2019-2021 og vinnur í að kanna lögmæti þeirra.

Fundur verður haldinn með frambjóðendum kl. 12 á miðvikudaginn og verða nöfn frambjóðenda birt á vef VR að honum loknum.

Alls verður kosið til sjö sæta í stjórn og þriggja í varastjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert