Ekki í annarlegum tilgangi

Ekki er talið að einstaklingurinn hafi safnað kennitölum og forsíðumyndum …
Ekki er talið að einstaklingurinn hafi safnað kennitölum og forsíðumyndum í annarlegum tilgangi. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki þykir ástæða til þess að ætla að einstaklingur sem safnaði kennitölum og forsíðumyndum 422 nemenda í 96 grunnskólum landsins í gegnum skólaupplýsingakerfi Mentor hafi gert það í annarlegum tilgangi.

Athæfið var engu að síður ólöglegt og skoðar Mentor nú réttarstöðu sína í málinu. Þetta staðfestir Niclas Walter, forstjóri InfoMentor, í samtali við mbl.is.

Í lok dags fimmtudaginn 14. febrúar varð uppvíst um heimildarlausa upplýsingasöfnun af hálfu skráðs notanda í Mentor. Tókst viðkomandi eins og áður segir að safna kennitölum og forsíðumyndum á fimmta hundrað nemenda í hátt í hundrað skólum í sveitarfélögum um allt land.

Í tilkynningu frá Mentor segir að hugbúnaðarsérfræðingar fyrirtækisins hafi brugðist við undir eins og eytt veikleikanum í kerfinu.

Jafnframt hefur sveitarfélögum, persónuverndarfulltrúum sveitarfélaga og skólastjórum allra skóla hér á landi verið gerð grein fyrir upplýsingasöfnuninni, auk skóla þeirra nemenda sem upplýsingum var ekki safnað um.

Fram kemur í tilkynningunni að hjá Mentor sé málið litið mjög alvarlegum augum.

„Hugbúnaðarsérfræðingar hafa því skoðað ofan í kjölinn hvernig hægt var að nálgast upplýsingarnar og gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi kerfisins enn frekar. Sannreynt hefur verið að ekki var um að ræða neinar aðrar upplýsingar en kennitölu og forsíðumynd viðkomandi nemenda. Ekki var hægt að nálgast neinar aðrar upplýsingar né heldur breyta upplýsingum og engin lykilorð voru í hættu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert