Eldur kom upp á bílaverkstæði

Eldurinn virðist hafa komið upp í tækinu sem stendur hér …
Eldurinn virðist hafa komið upp í tækinu sem stendur hér vinstra megin á myndinni. Hann læsti sig svo í tengivagninn sem sjá má fyrir utan húsið. Ljósmynd/Brunavarnir Skagafjarðar

Brunavarnir Skagafjarðar voru ræstar út í nótt vegna elds sem kom upp á bílaverkstæði Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki. Samkvæmt Facebook-færslu frá Brunavörnum Skagafjarðar virðist sem eldurinn hafi komið upp í tæki sem prófar ljósabúnað ökutækja. Þaðan mun eldurinn svo hafa borist í flutningavagn sem stóð hjá.

„Slökkvistarf gekk greiðlega og var húsið reykræst í framhaldi. Betur fór en á horfðist og má þakka það m.a. almennum eldvörnum s.s brunaviðvörunarkerfi hússins og brunahólfun. Talsvert tjón varð á vagninum og eitthvert tjón á húsnæðinu af völdum sóts,“ segir í Facebook-færslu Brunavarna Skagafjarðar.

Héraðfréttamiðillinn Feykir greindi fyrst frá brunanum og hefur eftir Marteini Jónssyni, framkvæmdastjóra verslunar- og þjónustusviðs K.S., að skemmdirnar hafi verið óverulegar.

Marteinn segir brunakerfið hafa komið í veg fyrir að stjórtjón yrði og þakkar slökkviliði, lögreglu og Gunnari Valgarðssyni einnig fyrir skjót viðbrögð, eftir að útkallið barst.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert