Spáð allt að 40 m/s

Kort/Veðurstofa Íslands

Gengur í austanstorm í kvöld og nótt. Útlit fyrir hríð á fjallvegum um land allt með lélegu skyggni. Austan 20-25 m/s undir Eyjafjöllum í nótt með hviðum um 40 m/s. Varahugavert ferðaveður, samkvæmt Veðurstofu Íslands.

„Suður í hafi er vaxandi 980 mb lægð sem nálgast landið. Því verður austanátt í dag, 10-15 m/s með stöku skúrum eða éljum, en hægari vindur, þurrt og háskýjahula á Norður- og Austurlandi. Lægðin verður nálægt landinu í nótt og því hvessir, og þykknar meira upp, í kvöld og nótt, fyrst syðst á landinu.

Gengur víða í 18-23 m/s og hiti 0 til 6 stig. Kemur mögulega slydda í fyrstu sunnan til á landinu, en skiptir fljótt yfir í rigningu á láglendi, en slydda eða snjókoma um norðanvert landið. Því má búast við hríð á einhverjum fjallvegum í öllum landshlutum, og undir Eyjafjöllum er útlit fyrir hviður um 40 m/s. Það lægir svo snemma á morgun, fyrst syðst á landinu, og styttir upp. Suðlæg átt 5-13 síðdegis, úrkomulítið og kólnar aftur, en næsta lægð nálgast svo aðfaranótt föstudags,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan 10-15 m/s, og stöku skúrir eða él, en hægari og víða léttskýjað norðan- og austanlands. Hiti um frostmark en frost að 9 stigum í innsveitum fyrir norðan. Gengur í austan 15-25 m/s í nótt, fyrst og hvassast syðst, með rigningu á láglendi en slyddu eða snjókomu um norðanvert landið. Hlýnar í veðri. Lægir talsvert um hádegi, fyrst sunnan til. Suðlæg átt 5-13 síðdegis, úrkomulítið og kólnar aftur, en vaxandi suðaustanátt seint annað kvöld.

Á miðvikudag:

Austan 18-23 m/s og rigning eða slydda, en yfirleitt snjókoma um landið norðaustanvert. Hiti frá frostmarki á Norðausturlandi, upp í 7 stiga hita með suðurströndinni. 
Lægir talsvert um hádegi, fyrst syðst á landinu. Suðlæg átt 5-13 síðdegis, úrkomulítið og kólnar í veðri. 

Á fimmtudag:
Sunnan 13-20 m/s, hvassast vestast á landinu og rigning, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti 4 til 9 stig. 

Á föstudag:
Hæg suðlæg átt og þurrt, en austlægri vindur, 8-15 m/s, og rigning suðaustan og austan til á landinu. Hiti 1 til 6 stig. 

Á laugardag:
Suðlæg átt 10-15 m/s og víða rigning, en hvöss vestanátt og snjókoma um kvöldið. Kólnandi veður. 

Á sunnudag:
Hæg breytileg átt, léttskýjað og frost 0 til 5 stig. Vaxandi suðaustanátt og hlýnar um kvöldið, og fer einnig að rigna sunnan- og vestanlands. 

Á mánudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt og léttskýjað, en stöku él um vestanvert landið. Hiti kringum frostmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert