Kjarnorkustyrjöld í Selsferð

Menntaskólaselið er í Reykjadal inn af Hveragerði. Hér voru staddir …
Menntaskólaselið er í Reykjadal inn af Hveragerði. Hér voru staddir um 100 krakkar úr MR sem töldu sína síðustu stund runna upp. Gamnið svonefnda hafði eftirköst og sumir hefðu þurft það sem í dag er kallað áfallahjálp. mbl.is/Sigurður Bogi

Uppákoman í Selsferðinni er einhver mesta lífsreynsla sem ég hef mætt,“ segir Heimir Sindrason tannlæknir. „Enginn var samur á eftir; því þarna vorum við um 100 krakkar saman sem stóðum andspænis dauða okkar á ögurstund mannkynssögunnar. Skelfingin sem greip um sig var mikil, í vitund allra sem þarna voru lifir þetta mál enn og margir hefðu sjálfsagt þurft það sem í dag er kallað áfallahjálp.“

Út er komin bókin Styrjöldin í Selinu, hvar segir frá sögulegri ferð nemenda í 5. bekk Menntaskólans í Reykjavík í Sel skólans í Reykjadal við Hveragerði í febrúar árið 1965. Þar bar til tíðinda að á miðju kvöldi var sett á segulbandsupptaka þar sem flutt var sú fregn að Rússar hygðust innan stundar varpa kjarnorkusprengju á Keflavíkurflugvöll.

Fréttir þessar voru lesnar af þulum Ríkisútvarpsins og þeim fylgdi ávarp Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra. Bað hann landsmenn um að sýna stillingu, en þegar þarna var komið sögu höfðu óeirðir brotist út í borginni sem fólk var hvatt til að flýja.

Framsetning þessa alls var trúverðug, að minnsta kosti í vitund skólanemanna sem þarna voru á til þess að gera afskekktum stað. Ekkert var þó stríðið; fréttamenn þess tíma höfðu léð raddir sínar í leikþáttinn og eftirherma brá sér í hlutverk forsætisráðherrans. Engir farsímar voru til á þessum tíma og áhrifamáttur einu útvarpsstöðvarinnar á landinu slíkur að engum datt í hug, í fyrstu að minnsta kosti, að vefengja tíðindin, sem reyndust svo vera gabb og grátt gaman. 

Sjá samtal við Heimi í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert