Feimnismál í fyrstu en nú sjálfsagt mál

Fulltrúar RÚV, Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar komu …
Fulltrúar RÚV, Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar komu saman á fundi í sal Blaðamannafélagsins í morgun þar kynjahlutföll viðmælenda í fjölmiðlum voru m.a. til umfjöllunar. Ljósmynd/FKA

Skráning á kyni viðmælenda var feimnismál í fyrstu en er nú sjálfsagt mál. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Steinunnar Þórhallsdóttur, framkvæmdastjóra framleiðslu og ferla hjá RÚV, í tilefni af Fjölmiðladegi Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), sem er í dag.

Þetta er sjötta árið í röð sem FKA stendur fyrir deginum, en á þessum degi er skorað á fjölmiðla að jafna kynjahlutföll viðmælenda sinna í fréttum og fréttatengdum þáttum.

Fulltrúar RÚV, Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar komu saman á fundi í sal Blaðamannafélagsins í morgun þar sem Steinunn fór meðal annars yfir hugarfar, talningu og hugmyndafræðina á bak við kynjatalningar RÚV.

Fjölmiðlar endurspegli samfélagið

Kynjatalningin hófst í desember 2015 og er RÚV ákveðinn brautryðjandi í þeim efnum en jafnrétti hefur verið ein af fjórum lykiláherslum stofnunarinnar síðustu fimm ár. „Það er ekkert óeðlilegt við þessa nálgun að við verðum að endurspegla samfélagið,“ sagði Steinunn meðal annars. 

FKA vakti fyrst athygli á kynjahalla viðmælenda fyrir sex árum. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, sem er hluti af fjölmiðlahópi FKA, segir að þegar vinna hópsins fór af stað hafi miðlarnir ekki verið farnir að huga að samræmdri skráningu kynjahlutfalls viðmælenda. Cred­it Info koma að taln­ing­unni í upp­hafi sem sýndi að í fréttum voru 80% viðmæl­enda karl­ar og 20% kon­ur. Í frétta­tengd­um þátt­um var hlut­fallið ögn skárra, eða 70% karl­ar og 30% kon­ur.  

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, sem er hluti af fjölmiðlahópi FKA, segir …
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, sem er hluti af fjölmiðlahópi FKA, segir það mikið fagnaðarefni hversu jákvæðir fjölmiðlar eru í garð þess að halda skráningu yfir kyn viðmælenda. Ljósmynd/FKA

Jafnt kynjahlutfall í dagskrá RÚV í fyrra

RÚV hefur haldið samræmda skráningu á kynjahlutfalli viðmælenda í þrjú ár og er það birt opinberlega á þriggja mánaða fresti. Hlutfall kynjanna verður sífellt jafnara og á síðasta ári mældist það í fyrsta sinn alveg jafnt, þ.e. 50% karlar og 50% konur, í dagskrá RÚV. Ef eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir eru teknir saman er hlutfall viðmælenda 69% karlar og 37% konur.

Gunnhildur segir það mikið fagnaðarefni hversu jákvæðir fjölmiðlar eru í garð þess að halda skráningu yfir kyn viðmælenda. „Ég tel að það sé orðið norm hjá helstu miðlum í dag að fylgjast með kynjahlutfalli viðmælenda. Margir eru að skrá en aðrir eru alla vegana með hugann við þetta.“ Á sama tíma fjölgar kvenkyns viðmælendum, sem Gunnhildur segir að sé að sjálfsögðu jákvætt, en alltaf sé hægt að gera betur og jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum fjölmiðla. „Það er markmiðið,“ segir Gunnhildur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert