Sungið af ættjarðarást í New York

„Við vorum full af þjóðernisást þegar Íslendingafélagið í New York fagnaði 10 ára lýðveldisafmæli Íslands á Piccadilly-hótelinu í New York,“ segir Guðrún Tómasdóttir, sópransönkona og söngkennari, í samtali við Morgunblaðið en hún tók þátt í hátíðarhöldunum í New York 18. júní 1954.

Guðrún segir að Magnús Blöndal Jóhannsson píanóleikari hafi verið í forsvari fyrir dagskrá kvöldsins. Hún og Guðmunda Elíasdóttir hafi sungið íslensk lög við undirleik og í útsetningu Magnúsar Blöndal. Á trompet hafi spilað amerískur tónlistarmaður sem Guðrún man ekki nafnið á. Gunnar Eyjólfsson leikari hafi lesið upp ættjarðarljóð ásamt henni og Guðmundu og það hafi allir verið í sínu fínasta pússi á lýðveldisafmælinu.

Guðrún Tómasdóttir, söngkona og söngkennari, rifjar m.a. upp lýðveldishátíð Íslendingafélagsins …
Guðrún Tómasdóttir, söngkona og söngkennari, rifjar m.a. upp lýðveldishátíð Íslendingafélagsins í New York sumarið 1954. mbl.is/Eggert

„Guðrún Camp, formaður Íslendingafélagsins, bjó með eiginmanni sínum í New York og ef ég man rétt var hún ein af þeim sem komu að stofnun fyrstu AA-deildarinnar á Íslandi. Guðmunda Elíasdóttir flutti til New York með fjölskyldu sinni 1953 en hún lærði söng í París og Kaupmannahöfn. Gunnar Eyjólfsson lærði leiklist í New York, hann fékk hlutverk í a.m.k. einu leikriti en vann á þessum tíma fyrir sér sem flugþjónn og Magnús Blöndal stundaði píanónám við Juilliard-skólann. Sjálf var ég að læra söng,“ segir Guðrún sem langaði að læra með öðrum Íslendingum, svo sem Kristni Hallssyni, Þuríði Pálsdóttur og leikaranum Jóni Sigurbjörnssyni á Ítalíu eða í London. Á þeim tíma máttu Íslendingar ekki vinna fyrir sér á þessum stöðum og þar sem Guðrún fékk ekki styrk hafði hún ekki tök á að læra á Ítalíu eða í London.

Nánar er rætt við Guðrúnu í Morgunblaðinu í dag og birt aftur mynd, sem blaðinu barst frá Íslendingahátíðinni á Piccadilly-hótelinu fyrir 65 árum. Lesendur blaðsins brugðust vel við áskorun um að koma með nöfn á fólkið á myndinni og eru þau birt í blaðinu í dag.

Íslendingar og gestir prúðbúnir á Piccadilly-hótelinu í New York 18. …
Íslendingar og gestir prúðbúnir á Piccadilly-hótelinu í New York 18. júní 1954 þegar 10 ára afmæli lýðveldisins var fagnað. Nöfn nokkurra þeirra eru birt í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Empire

Einnig barst ábending frá Bjarka Sveinbjörnssyni tónlistarfræðingi, sem útvegaði Morgunblaðinu hljóðupptöku á tónverki Magnúsar Blöndals sem flutt var þetta kvöld í New York. Upptakan var flutt í þætti sem Bjarki var með á Rás 1 í kringum síðustu aldamót.

Með upptökunni á mbl.is fylgir mynd af flytjendum á æfingu fyrir hátíðina. Frá vinstri á þeirri mynd eru Magnús Blöndal, Gunnar Eyjólfsson, Guðrún Camp, formaður Íslendingafélagsins, Guðrún Tómasdóttir og Guðmunda Elíasdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert