Vildi láta fjarlægja upplýsingar um sig

Fyrrverandi alþingismaður og núverandi varaþingmaður vildi að upplýsingar um hann …
Fyrrverandi alþingismaður og núverandi varaþingmaður vildi að upplýsingar um hann yrði fjarlægðar af vef þingsins. Alþingi hafnaði því og Persónuvernd hefur úrskurðað að birting upplýsinganna standist lög. mbl.is/Kristinn Magnússon

Persónuvernd hefur kveðið upp þann úrskurð að vinnsla Alþingis á persónuupplýsingum um fyrrverandi alþingismann og núverandi varaþingmann vegna Alþingismannatals samrýmist lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. 

Þingmaðurinn fyrrverandi sendi kvörtun til Persónuverndar í mars á síðasta ári vegna þeirra upplýsinga sem um hann væri að finna á vef Alþingis. Hafði umræddur einstaklingur áður en til þess kom óskað eftir því við Alþingi að persónuupplýsingar um hann yrðu fjarlægðar úr Alþingismannatali. Því hefði hins vegar verið hafnað.

Enn fremur segir í kvörtuninni að þingmaðurinn fyrrverandi, sem fram kemur í úrskurðinum að hafi setið á þingi fyrir þingkosningarnar á síðasta ári en síðan misst þingsæti í þeim, geti ekki sætt sig við það að birtar séu upplýsingar um foreldra, skólagöngu, starfsferil, maka og börn í Alþingismannatali eftir að setu á þingi sé lokið.

Framkvæmdin yfir 100 ára gömul

Bent er á í bréfi frá Alþingi að sú framkvæmd að halda skrá yfir þá sem tekið hafa sæti á Alþingi sé yfir 100 ára gömul. Þær upplýsingar séu einnig aðgengilegar í handbókum Alþingis, sem gefnar hafa verið út frá árinu 1984, en rafrænt frá árinu 1999. Vísað er enn fremur til almannahagsmuna í lýðræðissamfélagi.

„Vísað er til þess að þessi framkvæmd byggist á því viðhorfi að almenningur skuli hafa sem bestar upplýsingar um þá sem kjörnir hafa verið til setu á Alþingi. Að því búi að baki þau sjónarmið að Alþingi sé fulltrúasamkoma lýðræðiskjörinna fulltrúa í opnu og lýðræðislegu samfélagi. Slíkar upplýsingar varpi ljósi m.a. á uppruna og bakgrunn þingmanna, viðfangsefni þeirra og tengsl þeirra við hagsmunaaðila.“

Gæti tekið sæti sem varaþingmaður

Þannig liggi fyrst og fremst almannahagsmunir til grundvallar birtingunni, sem og hagsmunir Alþingis sem heildar, fremur en hagsmunir þeirra sem kjörnir hafi verið til setu á þingi. Vísar Alþingi enn fremur til þess að þær upplýsingar sem um ræðir séu að mestu einnig aðgengilegar í stéttartölum. Það sé mat Alþingis að sterk rök mæli með því að umræddar upplýsingar varði störf Alþingis sem fulltrúasamkomu.

Einnig er bent á það slíkar upplýsingar um þingmenn geti haft þýðingu þó svo að alþingismaður sitji ekki lengur á þingi og vísað í því sambandi til þess að viðkomandi einstaklingur kunni meðal annars að taka sæti á þingi sem varaþingmaður. Persónuvernd fellst á röksemdir Alþingis og kemst enn fremur að þeirri niðurstöðu sem fyrr segir að birting umræddra upplýsinga gangi ekki gegn lögum um persónuvernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert