Fjölskyldusamvera í skólavetrarfríi

Margt er í boði í vetrarfríi grunnskólanna í Reykjavík.
Margt er í boði í vetrarfríi grunnskólanna í Reykjavík.

„Vetrarfríin eru hætt að koma foreldrum jafnmikið á óvart og þau gerðu fyrstu árin. Fyrir foreldra, skóla og atvinnulíf er þetta orðið eðlilegur hluti af skólahaldinu,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, en hún segir að mikil umræða hafi verið í samfélaginu á sínum tíma um að tekin yrðu upp vetrarfrí í skólum líkt og gert var hjá öðrum Norðurlandaþjóðum sem við berum okkur saman við.

Hrefna segir að af og til komi upp umræða um að skólafríin geti verið streituvaldandi. Umræðan hafi verið háværari fyrstu árin þegar fríin komu foreldrum í opna skjöldu en það hefðu þau ekki átt að gera ef foreldrar hefðu fylgst með skóladagatali barna sinna.

„Breytingar taka tíma og nú er vetrarfrí í skólum komið á kortið,“ segir Hrefna og bendir á að það sé ekki á allra færi að geta verið með börnunum í vetrarfríi. Sumir eigi ekki frídaga á vinnustað og komist ekki frá vinnu af einhverjum orsökum. Aðrir hafi ekki efni á að taka sér frí eða skipta um umhverfi í skólafríinu.

Að sögn Hrefnu eru vetrarfrí í skólum á misjöfnum tímum, skólayfirvöld í hverju sveitarfélagi ákveði tímasetningu þeirra. Í sumum skólum sé ekki vetrarfrí heldur hætti börnin fyrr á vorin og komist í sauðburð. Hrefnu finnst ekki ástæða til þess að vetrarfrí séu samræmd og miðstýrð frekar en margt annað í skólakerfinu.

„Sveitarfélög hafa brugðist við vetrarfríum. Reykjavíkurborg er sem dæmi með metnaðarfulla dagskrá fyrir foreldra og börn sem tök hafa á að njóta frísins saman en einnig úrræði fyrir börn þar sem foreldrar hafa ekki tök á að vera með þeim.“

Umræðan hjá Heimili og skóla snýr í dag að sögn Hrefnu að áhyggjum af netnotkun barna, en mörg börn þekki ekki annað en rafræna veröld. Foreldrar leiti jafnvægis í þeim málum sem og milli vinnu og þess að sinna börnunum. Mörgum foreldrum finnist þeir ekki ná að sinna börnum sínum nóg og blikur virðast vera á lofti varðandi vímuefnanotkun unglinga.

„Við verðum að halda vöku okkar og missa ekki niður þann góða árangur sem náðst hefur,“ segir Hrefna.

Reykjavíkurborg býður foreldrum og forráðamönnum upp á ókeypis frístund og menningu séu þau í fylgd barna. Auk þess verða skapandi smiðjur og samvera í öllum Borgarbókasöfnunum meðan á vetrarfríi grunnskólanna í Reykjavík stendur, 25. og 26. febrúar. Á sumum söfnum stendur dagskráin yfir frá 23. til 26. febrúar.

Fyrir fullorðna í fylgd með börnum er ókeypis á Kjarvalsstaði, Ásmundarsafn, Hafnarhús, Árbæjarsafn, landnámssýninguna í Aðalstræti, Ljósmyndasafnið og Sjóminjasafnið.

Í frístundamiðstöðvum er m.a. hægt að taka þátt í Ársel Escape, klifra í turni á útivistarsvæðinu við Gufunesbæ og elda pylsur úti. Fara í skíðafjör í Húsabrekku í Grafarvogi, fá sér kakó og kleinur og hlusta á góða tónlist. Í Laugalækjarskóla er boðið upp á fjölskyldubingó, frítt er í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn milli 13 og 15 þar sem hægt er að prófa skylmó og föndra úr náttúrunni. Skartgripagerð er í boði í Tjörninni og í Miðbergi í Breiðholti er Mission Impossible-leikur, Just Dance og stingermót.

Sögur af nautum og perl

Borgarbókasafnið býður upp á skapandi smiðjur og samveru í öllum söfnum, m.a. er hægt að fara í hreyfimyndamiðju í Árbæ og vísindasmiðju í Gerðubergi. Í Grófinni er boðið upp á bíó og perl. Í Kringlunni búningafjör, bingó og brandara, sögur af nautum í Sólheimum og spæjarasmiðju í Spönginni.

Upplýsingar um viðburði í vetrarfríi er að finna á reykjavík.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert