Nokkrir telja sig hafa séð Jón Þröst

Einhverjir telja sig hafa séð Jón Þröst daginn sem hann …
Einhverjir telja sig hafa séð Jón Þröst daginn sem hann hvarf og dagana á eftir en ábendingarnar hafa ekki verið sannreyndar. Lögreglan í Dublin vinnur úr gögnum málsins. Ljósmynd/Írska lögreglan

Nokkrar ábendingar hafa borist frá einstaklingum sem telja sig hafa séð Jón Þröst Jónsson, Íslendinginn sem hvarf í Dublin að morgni laugardagsins 9. febrúar. Lögreglan í borginni vinnur úr ábendingunum og hafa þær enn sem komið er ekki leitt til staðfestingar á ferðum Jóns Þrastar eða gefið vísbendingar um hvar hann kunni að vera niður kominn.

„Það er fólk sem telur sig hafa séð hann, og þetta er fleiri en ein ábending,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, í samtali við mbl.is. Ráðgátan er því enn algjör um hvar Jón Þröstur sé niður kominn en síðast sást til hans í Whitehall-hverfinu í Dublin rétt rúmlega ellefu um hádegi umræddan laugardagsmorgun.

Jón Þröstur lenti í Dublin á föstudeginum, degi áður en hann hvarf, og var hann gagngert mættur til borgarinnar til þess að taka þátt í pókermóti sem átti að hefjast á miðvikudeginum. Segir Davíð Karl að hann hefði ætlað að nýta tímann fram til miðvikudagsins til að njóta borgarinnar og spila póker.

Jón fór út af hótelinu án þess að láta vita af sér

Morguninn sem Jón Þröstur hvarf lenti sambýliskona hans í borginni. Davíð Karl segir að hún hafi mætt á hótelið þar sem Jón Þröstur var sofandi. „Hún vekur hann, fer í sturtu og svo niður á hótelbar til að fá sér kaffi. Þegar hún kemur aftur upp á hótelherbergið er hann farinn. Hún veit ekki frekar en einhver annar hvað hann ætlaði sér eða hvert hann ætlaði að fara,“ segir Davíð.

„Það veit enginn hvaða ferðalag var á honum, hvort hann ætlaði í göngutúr eða út í búð. Það er ekkert athugavert við þær myndir sem við höfum séð úr öryggismyndavélum.“

Davíð Karl segir að gatan sem Jón Þröstur sást síðast við sé mjög fjölfarin. Hún liggi á milli miðbæjarins og flugvallarins og því sé ósennilegt að enginn hafi orðið hans var morguninn sem hann hvarf.

„Þarna er mikil umferð af gangandi fólki, sérstaklega á þessum tíma. Það hefur pottþétt einhver séð hann og þess vegna er svo mikilvægt að ná til allra,“ segir hann og bætir við að það hafi verið með ráðum gert að fara í stóra leitaraðgerð í gær ef ske kynni að eitthvað af sama fólki hefði verið á ferð á svæðinu á sama tíma og tveimur vikum áður.

Telja sig ýmist hafa séð Jón daginn sem hann hvarf eða dagana á eftir

„Þetta eru ábendingar sem þarf að vinna úr og sannreyna. Það er engin staðfesting á því að hann hafi sést,“ segir Davíð Karl. Hann segir fólk telja sig hafa séð hann á öllum tímum, þ.e. bæði daginn sem hann hvarf, og dagana á eftir, og eins á ólíkum stöðum, bæði í nágrenni svæðisins þar sem hann sást síðast og í miðborginni.

Írska lögreglan hélt blaðamannafund í dag vegna málsins og ræddi í kjölfarið við aðstandendur Jóns símleiðis. Davíð Karl segir að þar hafi komið fram að verið væri að vinna úr þeim gögnum sem sjálfboðaliðar öfluðu í leitinni í gær og að haft yrði samband við þau ef eitthvað markvert kæmi úr þeirri athugun lögreglu, en annars funda aðstandendurnir með lögreglunni á morgun.

Hann segir fjölskylduna bíða eftir því að írska björgunarsveitin verði ræst út, en eins og áður hefur komið fram ætlar írska lögreglan ekki að kalla út björgunarsveitina nema frekari vísbendingar um hvar Jón kunni að vera niður kominn komi fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert