Var með greiðslukortin á sér

Að sögn Mulligans hefur lögreglan leitað Jóns Þrastar með aðstoð …
Að sögn Mulligans hefur lögreglan leitað Jóns Þrastar með aðstoð leitarhunda og þyrlna. Ljósmynd/Írska lögreglan

Írski lögreglumaðurinn sem fer fyrir rannsókninni á hvarfi Jóns Þrastar Jónssonar segir hann hafa verið með greiðslukortin sín á sér þegar hann hvarf. Þetta kom fram í máli Mick Mulligan þar sem hann svaraði spurningum fjölmiðla utan við hótelið sem Jón Þröstur dvaldi á í morgun og Irish Times greinir frá.

Áður hafði komið fram í fjölmiðlum að Jón Þröstur hefði hvorki verið með síma, veski né vegabréf. Haft er eftir Davíð Karli Wiium, bróður Jóns Þrastar, hjá Irish Times að mögulegt sé að Jón Þröstur hafi haft nokkur þúsund evrur á sér þegar hann yfirgaf hótelið.

Mulligan sagði hins vegar að bankayfirlit Jóns Þrastar, sem lögreglan fylgist með, sýni að engar færslur hafi verið gerðar síðan hann hvarf í Dyflinni fyrir rúmum tveimur vikum.

Að sögn Mulligans hefur lögreglan leitað Jóns Þrastar með aðstoð leitarhunda og þyrlna á grænum svæðum í nálægð við hótelið sem hann dvaldi á.

Jón Þröstur og unnusta hans komu til Dyflinnar daginn áður en hann hvarf og voru þangað komin til þess að skoða sig um og taka þátt í pókermóti. Í frétt Irish Times segir að unnusta hans hafi farið á hótelbarinn að fá sér kaffi og að Jón Þröstur hafi gengið út af hótelinu á meðan. Hann hefur ekki sést síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert