Guðmundur Spartakus neitar allri aðild

Guðmundur Spartakus Ómarsson mætir í Landsrétt í morgun.
Guðmundur Spartakus Ómarsson mætir í Landsrétt í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fjölmiðlar voru búnir að sprengja það upp að ég átti að hafa gert þetta,“ sagði Guðmundur Spartakus Ómarsson þegar hann gaf skýrslu fyrir Landsrétti í morgun í dómsmáli sem hann höfðaði gegn Atla Má Gylfa­syni, fyrr­ver­andi blaðamanni Stund­ar­inn­ar.

Málið snýst um um­fjöll­un Atla Más um Friðrik Kristjáns­son sem hvarf spor­laust í Suður-Am­er­íku árið 2013. Í ít­ar­legri um­fjöll­un Atla Más um málið kaf­aði hann ofan í fíkni­efna­heim­inn á landa­mær­um Bras­il­íu og Parag­væ og bendl­aði Guðmund Spar­tak­us við hvarf Friðriks. Guðmundur krefst að þar til gerð ummæli verði dæmd dauð og ómerk, auk þess sem hann krefst 10 milljóna í miskabætur, auk vaxta.

Guðmundur sagði fyrir dómi að hann þekkti ekki Friðrik, hefði aldrei hitt hann og þess þá heldur átt í illdeildum við hann. „Það er erfitt að eiga í illdeilum við einhvern sem þú þekkir ekki og hefur aldrei hitt,“ sagði Guðmundur. Hann hafði heyrt sögur um að hann tengdist málinu, en að þær hafi sprottið upp úr fjölmiðlum.

„Þegar fréttir [bárust] um að Íslendingur hafi gert öðrum Íslendingi mein þá fóru sögur af stað. Þegar þetta rataði í fjölmiðla gengu þær sögur að ég hafi haft eitthvað með hvarfið hans að gera. Ég hef heyrt alls konar sögur, þær hafa gengið manna á milli,“ sagði Guðmundur, sem er búsettur í Paragvæ.

Hann var spurður hvað hann gerði í Paragvæ. Hann sagðist stunda fjölbreytta vinnu á landbúnaðarjörðum, grafi þar skurði og setji upp girðingar. Þá ætti hann hlut í lítilli kalkverksmiðju. Hann sagði þetta vera í fyrsta sinn sem hann kæmi í réttarsal, og hefði aldrei komist í kast við lögin.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar, í Landsrétti í morgun.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar, í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handtekinn að eggjan fjórða valdsins

Guðmundur játaði því að hafa verið handtekinn við komuna til Íslands í október 2016, en var sleppt eftir skýrslutöku. Hann sagði enga heimild hafa verið fyrir handtökunni.

„Engin handtökuskipun lá fyrir. Lögregla sagði að ég væri handtekinn fyrir ógreiddar hraðasektir og mér var sleppt strax eftir skýrslutökur. [Ég] var handtekinn að eggjan fjórða valdsins, fjölmiðla, fyrst það lá ekki handtökuskipun fyrir,“ sagði Guðmundur.

Hann hafi verið spurður um tengsl sín við hvarf Friðriks í umræddri skýrslutöku. Guðmundur sagðist ekki vita hvar Friðrik væri niðurkominn og að hann hefði aldrei verið eftirlýstur vegna málsins. Það hafi komið upp árið 2013, og fram að þessum tíma árið 2016 hafi verið nægur tími til þess að gefa sig fram ef gerð hefði verið krafa um slíkt. Lögregla hafi aldrei haft samband, fyrr en hún tók á móti honum á flugvellinum í október 2016.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar, spurði hvernig umfjöllunin um meint tengsl hans við málið hafi haft áhrif á hann.

„Þetta hefur verið þungur baggi fyrir fjölskylduna. Móðir mín byrjaði að drekka aftur. Faðir minn, sem drekkur aldrei, fór að leita í flöskuna. Litli bróðir minn byrjaði að sprauta sig,“ sagði Guðmundur, en umræddur bróðir er nú látinn.

„Það er erfitt að bendla það beint við þessa grein, en það hefur ekki hjálpað.“

Guðmundur Spartakus Ómarsson í Landsrétti í morgun.
Guðmundur Spartakus Ómarsson í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ábyrgðin er hjá íslenskum fjölmiðlum“

RÚV fjallaði um málið á sínum tíma, samdi við Guðmund Spartakus í máli gegn miðlinum og greiddi honum 2,5 milljónir í sakarkostnað og miskabætur. Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Atla Más, spurði Guðmund hvers vegna þær fréttir mættu standa en ekki fréttaflutningur Atla Más. Guðmundur sagði að hann teldi sáttagreiðslu RÚV  hafa verið viðurkenningu á að um rangan fréttaflutning hafi veri að ræða.

Íslenskir fjölmiðlar vitnuðu í paragvæska fjölmiðla varðandi meint fíkniefnaumsvif Guðmundar í Paragvæ. Hann var spurður hvers vegna hann höfðaði meiðyrðamál á Íslandi en ekki í Paragvæ, þar sem hann er búsettur. Guðmundur sagði í skýrslutöku að hann telji fréttaflutninginn af meintu fíkniefnasmygli hans hafa byrjað á Íslandi.

„Ég sá þessar fréttir [í Paragvæ] þegar þær birtust. Íslenskir miðlar hafa gengið miklu lengra en paragvæskir. Ég tel að ábyrgðin liggi hjá íslensku miðlunum. Ég veit fyrir víst að íslenskir fjölmiðlar voru í sambandi við hann [blaðamanninn frá Paragvæ]. Skaðinn var mestur í íslenskum fjölmiðlum, enda birtist þetta í kvöldfréttum. Hér er skaðinn mestur og það er mjög kostnaðarsamt að standa í þessu. Ég berst í bökkum,“ sagði Guðmundur.

Atli Már Gylfason og Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður hans, í …
Atli Már Gylfason og Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður hans, í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki stórmál að hafa útrunnið vegabréf

Guðmundur sagðist gruna að umfjöllunin hafi hafist á Íslandi, þar sem spænskumælandi fréttamaður RÚV hafi verið í sambandi við blaðamanninn frá Paragvæ. Þá rataði mynd af íslensku vegabréfi Guðmundar í íslenska fjölmiðla, og var hann spurður hvaðan hún gæti hafa komið.

„Ég veit ekki hvaðan hún kom. Paragvæskur blaðamaður var búinn að vera í beinu sambandi við blaðamann RÚV. Þetta hefði alveg eins getað komið frá Íslandi.“

Athygli vakti að vegabréfið sem rataði í fjölmiðla var útrunnið. Lögmaður Atla Más spurðu Guðmund þá hvort hann hefði ferðast til Paragvæ á útrunnu vegabréfi.

„Það þykir ekki stórmál að vera með útrunnið vegabréf þarna. Gefin eru út landvistarleyfi gegn vægum sektargreiðslum. Liggur bara sekt fyrir því að vera með útrunnið vegabréf,“ sagði Guðmundur. Hann sagðist hafa verið tekinn í skýrslutöku lögreglu í Paragvæ eftir vegabréfseftirlit. Hann sagði að vel gæti verið að myndin úr vegabréfi sínu hafi verið tekin þar.

Fer huldu höfði, reiður og pirraður

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar, spurði hann um meint tengsl hans við eiturlyfjasmygl og hvort hann væri höfuðpaur í slíkum aðgerðum frá Suður-Ameríku til Evrópu, eða öfugt. Jafnvel undir fölsuðum skilríkjum, þar sem hann ætti að hafa farið undir fölsku flaggi sem þýskur fasteignasali.

„Það er fjarri lagi. Ég nota ekki fölsk skilríki og þykist ekki vera þýskur fasteignasali,“ sagði Guðmundur, og vísaði til myndarinnar af íslenska vegabréfi sínu í fjölmiðlum. „Ég veit ekki hvaðan myndin kom. Sannar það að ég er með íslenskan passa en ekki þýskan.“

Vilhjálmur spurði Guðmund hvernig honum liði á Íslandi, hvort hann gæti hugsað sér að búa hér á ný eftir sex, sjö ár í Paragvæ.

„Mín æra er farin, hvernig sem þetta mál fer. Mínu viðskiptalífi hér er lokið. Ég fer huldu höfði og er reiður og pirraður út í þá sem skrifuðu þetta,“ sagði Guðmundur Spartakus Ómarsson í Landsrétti í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert