Mjög góðar aðstæður til leitar

mbl.is/Hallur Már Hallsson

Haldið verður áfram að leita að Páli Mar Guðjónssyni í Ölfusá í dag en hans hefur verið leitað frá því tilkynnt var á mánudagskvöldið að bifreið hans hefði hafnað í ánni.

Leitað verður á bátum og sæþotum að sögn Gunnars Inga Friðrikssonar, varaformanns svæðisstjórnar björgunarsveitanna sem stýrir leitinni. Verður leitað alveg frá Ölfusárbrúnni og niður að ósum árinnar. Leitin hófst um klukkan tíu í morgun.

Gunnar Ingi segir aðstæður mjög góðar til leitar. Minna rennsli sé í ánni núna og hún tærari. Fimm bátar séu við leit og tvær sæþotur auk gönguhópa.

Leitað var með flygildum í gær sem veitti góða mynd af ánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert