Vændi og eiturlyf á kampavínsklúbbum

Samkvæmt umfjöllun Kveiks er jafn auðvelt að kaupa vændi og …
Samkvæmt umfjöllun Kveiks er jafn auðvelt að kaupa vændi og að panta mat. Árni Torfason

Útsendara sjónvarpsþáttarins Kveiks voru boðin eiturlyf og vændi er hann heimsótti skemmtistaðinn Shooters við Austurstræti í vetur. Hann heimsótti einnig kampavínsklúbbinn Crystal við Tryggvagötu, þar sem hann fékk nektardans.

Fréttamaður Kveiks tók viðtöl við lögreglu og borgarfulltrúa vegna málanna og sýndi þeim myndböndin sem útsendarinn hafði aflað og mánuði síðar var Shooters innsiglaður af lögreglu vegna gruns um umfangsmikla brotastarfsemi. Skemmtistaðurinn var opnaður aftur skömmu síðar og þegar útsendari Kveiks heimsótti hann að nýju var allt við það sama.

Umfjöllunarefni Kveiks á RÚV í kvöld var vændi, en þar var meðal annars rætt við lögreglu, vændiskonur, vændiskaupendur og fulltrúa Stígamóta.

Samkvæmt umfjöllun Kveiks er jafn auðvelt að kaupa vændi og að panta mat, en fjöldinn allur af erlendum vændiskonum auglýsir sig til sölu á netinu og hitti Kveikur nokkrar þeirra. Flestar áttu það sameiginlegt að selja líkama sinn vegna fjárhagsvandræða og dreymdi þær um betra líf.

Erfiðara er að nálgast íslenskar vændiskonur, en Kveikur tók þó tali þær Guggu Jóns, starfandi vændiskonu til átta ára, og Evu Dís Þórðardóttur, sem stundaði vændi í hálft ár í Danmörku þegar hún var á þrítugsaldri.

Gugga og Eva Dís hafa ólíkar sögur að segja, en Guggu þykir vændið spennandi og skemmtilegt og segir það hafa bjargað lífi hennar. Hún muni halda áfram í vændi á meðan einhver vilji kaupa hana, en helst vilji hún verða kynlífsráðgjafi. Eva Dís segist hins vegar hafa talið sig hamingjusama á þeim tíma sem hún stundaði vændið, en hún hefði aldrei getað staðið í því í lengri tíma enda hafi það eyðileggjandi áhrif bæði á líkama og sál.

Eva Dís var beitt miklu kynferðisofbeldi á uppvaxtarárunum og leit á það sem svo að betra væri að fá greitt fyrir kynlíf en að stunda einnar nætur gaman. Hún vill segja sögu sína til þess að þeir sem hafa leiðst út í vændi geti stigið fram og fengið hjálp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert