„Ég styð þessa ákvörðun“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég talaði við ráðherra í gær, lýsti áhyggjum af stöðunni og styð þá niðurstöðu sem hún hefur komist að,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þá ákvörðun Sigríðar Á. Andersen að stíga til hliðar sem dómsmálaráðherra.

„Ég styð ákvörðun ráðherrans sem stígur til hliðar til þess að tryggja vinnufrið um þetta mikilvæga mál. Þannig axlar hún ábyrgð á því að hægt sé að leiða það til lykta,“ sagði Katrín, en málið snýst um skipun dómara við Landsrétt.

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að skipan dómara væri gegn mannréttindasáttmálanum. Katrín segir að hún taki þennan dóm mjög alvarlega.

„Ég tek þennan dóm mjög alvarlega. Ég setti fram mína gagnrýni í upphafi þessa máls. Sú breyting hefur orðið á núna að dómur Mannréttindadómstólsins hefur það víðtækar afleiðingar á stöðu Landsréttar að þess vegna styð ég ákvörðun ráðherra að stíga til hliðar,“ sagði Katrín.

Hún undirstrikaði að niðurstaða dómsins væri fordæmalaus.

„Ég hef kallað til sérfræðinga til að skoða dóm Mannréttindadómstólsins og það liggur fyrir að hann er fordæmalaus. Því er eðlilegt að honum verði áfrýjað. Samkvæmt upplýsingunum sem ég hef er ekki ólíklegt að efri deild Mannréttindadómstólsins muni taka hann til skoðunar. Þá fæst endanleg niðurstaða á þeim vettvangi í þessu máli.“

Ekki víst hver tekur við embætti

Sigríður Á Andersen sagðist ætla að stíga til hliða á meðan málið væri afgreitt frekar hjá Mannréttindadómstólnum. Hvað þýðir það?

„Staðan er sú að það liggur ekki fyrir hve langan tíma það mun taka að leiða þetta mál til lykta,“ sagði Katrín og sagði að það kæmi í ljós hver tæki við stöðu dómsmálaráðherra.

Aðspurð hvort hrókerað yrði innan ríkisstjórnar eða kallaður inn nýr maður sagðist Katrín ekki vita það á þessari stundu.

En hvað með stöðu Landsréttar, er hann starfhæfur?

„Það liggur ekki fyrir hvaða leiðir verði rétt að fara, hvort atbeina Alþingis þarf til eða dómstóla. Ég mun gefa þinginu skýrslu um stöðu mála. Það er mikilvægt að við vöndum okkur vel í þeirri vinnu sem fram undan er.“

Á Katrín von á því að Sigríður komi aftur inn í ríkisstjórn síðar meir?

„Það er ekki tímabært að segja til um það. Nú þurfum við bara að eyða þessari réttaróvissu. Stóra málið er að það þarf að leiða þetta mál til lykta með farsælum hætti fyrir almenning í landinu. Það eru almannahagsmunir að friður ríki um þetta mál,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert