Sýn gert að greiða hálfa milljón í sekt

Það er niðurstaða nefndarinnar að áberandi framsetning áfengra vörutegunda í …
Það er niðurstaða nefndarinnar að áberandi framsetning áfengra vörutegunda í þáttunum teljist til vöruinnsetninga fyrir vörumerkin Einstök og Reyka, sem falli undir hugtakið viðskiptaboð í skilningi laga. Sýn hafi ekki með óyggjandi hætti tekist að sýna fram á að vörunum hafi ekki verið stillt upp í auglýsingaskyni í dagskrárliðnum gegn gjaldi eða öðru endurgjaldi í skilningi laga um fjölmiðla. AFP

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi með miðlun á þáttunum Tveir á teini, sem voru á dagskrár Stöðvar 2 sumarið 2018, brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla með miðlun viðskiptaboða fyrir áfengi með yfir 2,25% áfengisstyrkleika.

Einnig 3. mgr. 42. gr. sömu laga með miðlun á kostuðu efni sem fól í sér hvatningu til kaupa á vörum er stöfuðu frá kostandanum Weber, og 1. mgr. 37. gr. sbr. c. og d. lið 4. mgr. 39. gr. laga um fjölmiðla með miðlun á viðskiptaboðum fyrir vörurnar Coca-cola og Source-engiferbjór.

Hefur Sýn verið gert að greiða 500.000 kr. í stjórnvaldssekt, að því er fram kemur á vef fjölmiðlanefndar.

Við ákvörðun sektar var m.a. litið til þess að við meðferð málsins lýstu forsvarsmenn Sýnar hf. því yfir að gripið hefði verið til aðgerða í því skyni að fyrirbyggja frekari brot gegn ákvæðum laga um viðskiptaboð. 

Hér má lesa ákvörðunina í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert