„Þetta er auðvitað í höndum formannsins“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, ræddi …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, ræddi stuttlega við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, segir að ekki sé enn orðið ljóst hver taki við sem dómsmálaráðherra. „Ekkert af þessu er enn þá orðið ljóst og við eigum eftir að eiga samtal í þingflokknum. Og þetta er auðvitað í höndum formannsins. Það eru ekki margir klukkutímar í að þetta skýrist allt saman,“ sagði hún við fréttamenn fyrir utan Stjórnarráðið nú á tólfta tímanum eftir að ríkisstjórnarfundi lauk.

Sagði Þórdís að hver tæki við sem dómsmálaráðherra hefði ekki verið meðal umræðuefna fundarins í dag. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, ætlar hins vegar að boða til þingflokksfundar síðar í dag og í kjölfarið verður ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem nýr aðili tekur við dómsmálaráðuneytinu af Sigríði Andersen, sem sagði af sér í gær.

Þórdís var jafnframt spurð hvort hún myndi taka við embættinu ef Bjarni myndi bjóða henni það. „Það er bara samtal sem ég á við formanninn,“ svaraði hún.

mbl.is