„Þetta er seigfljótandi verkefni“

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef áhyggjur af því hvers vegna ekki er gerður samningur við okkur um þjónustu sem við erum að veita og er ekki fjármögnuð. Hvað er eiginlega í gangi? Ég skil ekki hvers vegna staðan er svona?“ segir Valgerður Rúnarsdóttir framkvæmdastjóri SÁÁ við mbl.is. 

Göngudeild SÁÁ á Akureyri hefur verið lokuð frá 1. mars vegna fjárskorts þrátt fyrir að ríkið hafi samþykkti á fjárlögum síðasta árs að veita 150 milljónum króna til SÁÁ. Fjármagnið hefur ekki borist þar sem enginn þjónustusamningur SÁÁ við Sjúkra­trygg­ingar Íslands (SÍ) hefur verið gerður. 

„Ég er leið yfir stöðunni. Af hverju er þetta ekki gert létt, að fá það sem búið er að ákveða að við eigum að fá til þess að gera eitthvað meira þetta árið. Þetta er seigfljótandi verkefni,“ segir Valgerður. Frá áramótum hafa SÁÁ og SÍ unnið að gerð þjónustusamnings.

Á fundi þeirra í gær kom fram að SÍ hafi fengið fyrirmæli frá ráðuneytinu um skiptingu þessara 150 milljóna króna, þar af færu 20 milljónir til göngudeildar á Akureyri, 80 milljónir til göngudeildar í Reykjavík og 50 milljónir í Vog. Hún bendir á að á þeim fundum er verið að ræða um hvernig ráðstafa eigi þessum 20 milljónum til Akureyrar. „Við förum á fund til að ræða eitt brot af fjármagninu,“ segir Valgerður.  

Þrátt fyrir þessa tregðu í samningagerð er Valgerður vongóð um að niðurstaðan verði góð. „Þetta er samt ekki komið. Við erum í þeirri stöðu að við getum ekki borgað meir án þess að fá eitthvert framlag. Þegar þetta er í höfn opnum við fljótt á Akureyri. ”

Hún ítrekar að starfsemin verði að fá fjármagn fljótt því veikt fólk geti ekki endalaust beðið. Staðan er ekki góð og biðlistarnir í meðferð eru langir. 

Sjá einnig pistil Valgerðar hér.  

mbl.is