12 mánuðir fyrir árás á lögreglumann

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður var í dag dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa kýlt lögreglumann í andlitið og hótað honum lífláti. Fjórar tennur brotnuðu í lögreglumanninum vegna árásar mannsins.

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að maðurinn hafi verið handtekinn í janúar í fyrra og færður á lögreglustöð. Þegar komið var í klefann var honum tilkynnt að hann þyrfti að fara úr skóm sem maðurinn neitaði að gera.

Lögreglumenn tóku manninn þá niður og lögðu á bekk í klefanum og færðu hann úr skónum. Þegar þeir fóru úr klefanum reyndi maðurinn að koma í veg fyrir að hurð klefans yrði lokað. Náði maðurinn jafnframt að kýla lögreglumann í andlitið, en eftir það tókst að loka hurðinni og læsa.

Þegar opnuð var lítil lúga á fangaklefanum reyndi maðurinn jafnframt að kýla lögreglumann í gegnum lúguna, en ekki hitt.

Þá var maðurinn jafnframt ákærður og fundinn sekur um að hafa hótað lögreglumanni lífláti með því að hafa sagt „Ég stúta þér síðar“ og „Ég stúta þér, þú skalt passa þig“

Maðurinn á að baki allnokkurn sakaferil og hefur frá árinu 2000 fengið 19 refsidóma og gengist undir eina lögreglustjórasátt. Ekki hefur þótt tilefni til að skilorðsbinda fangelsisdóma mannsins frá árinu 2004. Maðurinn hefur þrisvar verið dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni. Þá hefur hann einnig verið dæmdur í fangelsi fyrir líkamsárásir og þjófnað.

Maðurinn vildi ekki tjá sig um sakarefni við meðferð málsins.

Sem fyrr segir var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi og til að greiða sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert