Enginn átti von á þessu

AFP

Hjörtur Arason býr í Christchurch ásamt fjölskyldu sinni og hann segir þau vera í áfalli yfir árásinni og eitthvað sem enginn hafi búist við að gæti gerst á Nýja-Sjálandi. Christchurch sé ekki ólík Reykjavík og afar friðsæl. Tala látinna hefur verið hækkuð í 49 og yfir 20 eru alvarlega særðir.

„Þetta sýnir okkur að þú ert hvergi óhultur fyrir hryðjuverkum og því miður er þetta veruleiki sem blasir við okkur í dag. Á Nýja-Sjálandi býr fólk af ólíkum þjóðernum saman í sátt og samlyndi og trú hefur aldrei skipt miklu máli. Það er hvaða trúarbrögð þú aðhyllist. Þarna er árásarmaðurinn ástralskur innflytjandi sem gerir árás á aðra innflytjendur. Margir þeirra eru flóttamenn frá stríðshrjáðum svæðum sem töldu sig vera komna til öruggs lands og hólpna. Þetta er ömurlegt og mikilvægt, líkt og mér sýnist að fjölmiðlar hér ætli að gera, að hylla ekki þennan mann sem hetju. Hann er hryðjuverkamaður og á ekki að setja á stall með umfjöllun,“ segir Hjörtur.

Breivik fyrirmyndin

Líkt og fram hefur komið birti árásarmaðurinn stefnuyfirlýsingu sína á netinu þar sem hann segist meðal annars vera undir áhrifum norska vígamannsins Anders Breivik og að hann vilji hefna fyrir þær þúsundir mannslífa sem útlendir árásarmenn hafi tekið í Evrópu. Ástralinn sýndi beint frá árásinni á samfélagsmiðlum þar sem hann skaut tugi almennra borgara til bana og særði aðra. 

Hjörtur Arason, Kathryn Payne og Ottó sonur þeirra.
Hjörtur Arason, Kathryn Payne og Ottó sonur þeirra. Úr einkasafni

Að sögn Hjartar eru moskurnar báðar í alfaraleið og keyrir hann þarna fram hjá mörgum sinnum í viku á leið til og frá vinnu líkt og flestir aðrir íbúar í borginni. Hann var heima þegar árásin hófst ásamt fjölskyldu sinni. Árásin hófst skömmu eftir hádegi og það var ekki fyrr en tveimur tímum síðar að ástandið fór að róast í borginni en nánast allt athafnalíf lamaðist í kjölfarið. 

49 létust í skotárásum á tvær moskur í borginni og yfir tuttugu eru alvarlega særðir. Fjórir eru í haldi lögreglu, þrír karlar og ein kona. Einn þeirra er Ástrali sem er öfgamaður og að sögn forsætisráðherra Ástralíu er hann ofbeldishneigður hryðjuverkamaður. Þrír voru handteknir á vettvangi en fjórða manneskjan í kjölfarið. 

Að sögn Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, hafa engir Íslendingar í vanda haft samband við borgaraþjónustu ráðuneytisins en starfsmenn utanríkisráðuneytisins munu reyna að ná til Íslendinga á þessum slóðum. Hann biður þá sem eru í einhverjum vanda að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en aðra að hafa samband við ættingja og láta vita af sér. Eða þá í gegnum samfélagsmiðla, svo sem Facebook. 

Fyrir utan Masjid al Noor-moskuna.
Fyrir utan Masjid al Noor-moskuna. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert