Telur málið verða ríkissjóði dýrt

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fagna yfirlýsingu hæstvirts forsætisráðherra um að hún hyggist vinna þetta mál í samvinnu við alla flokka. Samfylkingin er tilbúin til að koma að þeirri vinnu enda verði hún byggð á vandvirkni og virðingu fyrir Mannréttindadómstólnum.“

Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í síðustu viku þar sem meðal annars var fjallað um skipun dómara í Landsrétt.

„Vonandi verður þessi dómur til þess að nú heyri sögunni til að ráðherrar freistist til að skipa í dómstóla af geðþótta fólk sem er ekki hæfast úr röðum umsækjanda, vitandi að það getur kallað yfir skattborgarana skaðabætur en viðkomandi dómarar sitja sem fastast.“

Spáði Logi því að kostnaður ríkissjóðs vegna málsins yrði mikill. „Kannski nást við þau einhverjir samningar eða þau verða á launum út starfsævina, en það er víst að klúður fyrrverandi ráðherra á eftir að verða okkur býsna dýrt,“ sagði hann og bætti við:

„Líklega mun kostnaðurinn hlaupa á hundruðum milljóna króna. Það er vissulega dýrt að halda úti óháðum og góðum dómstólum og dómskerfi og er fyllilega fjárfestingarinnar virði. En hér er hins vegar um að ræða fjáraustur sem hefði verið hægt að spara sér og nota í betri hluti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert