Sjöunda mislingatilfellið staðfest

Í gær, þriðjudaginn 19. mars, greindist einstaklingur í Reykjavík með …
Í gær, þriðjudaginn 19. mars, greindist einstaklingur í Reykjavík með mislinga og er það sjöunda tilfellið frá því að mislingafaraldurinn hófst hér á landi í febrúar. mbl.is/​Hari

Nýtt tilfelli mislinga greindist í gær og er það sjöunda tilfellið sem greinist frá því að mislingafaraldurinn hófst hér á landi í febrúar.

Í tilkynningu á vef embættis landlæknis kemur fram að um er að ræða 23 ára einstakling með sögu um bólusetningu við 12 ára aldur. Hann hafði nýlega verið í umgengni við smitandi einstakling. Um 10 dögum síðar fékk hann vægan hita í 1–2 daga með mislingalíkum útbrotum. Niðurstaða rannsóknar 19. mars var vægt jákvæð fyrir mislingum.

Einn þessara sjö einstaklinga var með jákvætt próf eftir mislingabólusetningu sem greinir ekki á milli raunverulegra mislinga og áhrifa af bólusetningunni og flokkast því sem vafatilfelli.

Í tilkynningu frá embætti landlæknis segir að að öllum líkindum sé hér um að ræða væga mislinga (e. modified measles) sem er vel lýst hjá bólusettum einstaklingum. Engin hætta er á alvarlegum veikindum í slíkum tilfellum og smithætta til annarra lítil. Ekki er þörf á sóttkví annarra sem umgengist hafa þann veika af þessu tilefni en hinn veiki verður í einangrun í fjóra daga eftir að útbrot byrjuðu.

Undanfarið hefur einnig borið á því að bólusettir einstaklingar hafi fengið útbrot skömmu eftir bólusetninguna og greinst jákvæðir í rannsóknum fyrir mislingum. Þessi einkenni eru eðlileg eftir bólusetninguna og valda ekki smiti til annarra. Í flestum slíkum tilfellum er ekki ástæða til sýnatöku en sýnataka er alltaf háð mati læknis.

Þetta nýjasta tilfelli breytir ekki fyrri viðbrögðum við mislingafaraldrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert