Krefst endurupptöku á máli Zainab

Nemendur í Hagaskóla gengu mótmælagöngu í dag.
Nemendur í Hagaskóla gengu mótmælagöngu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lögmaður fjölskyldu Zainab Safari hefur farið fram á endurupptöku máls fjölskyldunnar hjá kærunefnd útlendingamála á grundvelli breyttra aðstæðna. Í samtali við mbl.is segir Magnús Norðdahl að atburðir dagsins hafi sýnt það svart á hvítu hversu sterk tengsl fjölskyldan, og sérstaklega Zainab, hefði myndað hér á landi.

Samnemendur Zainab söfnuðu 600 undirskriftum og 6.000 rafrænum undirskriftum vegna máls fjölskyldunnar og afhentu kærunefnd útlendingamála listana í dag, auk þess sem þeir stóðu fyrir mótmælum þar sem brottvísun fjölskyldunnar var mótmælt.

Í kröfu lögmanns fjölskyldunnar, sem mbl.is hefur undir höndum, er farið fram á að ákvarðanir útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar.

Til vara er þess krafist að kærunefnd útlendingamála fresti framkvæmd endanlegrar ákvörðunar um brottvísun.

„Það væri ákaflega þungbært fyrir bæði börnin að hafa fengið tækifæri til að aðlagast íslensku samfélagi, á þeim tíma sem þau hafa verið hér, til þess eins að vera rifin upp með rótum og send úr landi með einstæðri móður sinni, í erfiðar aðstæður á Grikklandi. Það tekur tíma fyrir börn á þessum aldri að venjast umhverfi sínu og þeim háttum og venjum sem tíðkast á hverjum stað. Það væri beinlínis ómannúðlegt að vísa þeim úr landi við þær aðstæður sem uppi eru í málinu og þá aðlögun sem þegar hefur farið fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert