Áskorun að ná til ferðamanna

Í Eyjafjallagosinu árið 2010. Veðurstofa Íslands gegnir yfirgripsmiklu eftirlitshlutverki með …
Í Eyjafjallagosinu árið 2010. Veðurstofa Íslands gegnir yfirgripsmiklu eftirlitshlutverki með náttúruvá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er einstakt á heimsvísu. Hvergi annars staðar í heiminum er vöktun náttúruvár jafn samþætt og hér á landi,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs Veðurstofu Íslands. Þetta kom fram á ársfundi Veðurstofunnar í dag.

Veðurstofa Íslands sinnir yfirgripsmiklu eftirlitshlutverki og vaktar náið náttúruöfl landsins eins og t.d. eldfjöll, veður, jarðskjálfta, jökulhlaup, hlaup í ám og vötnum og snjóflóð svo fátt eitt sé nefnt. Sífellt bætast við nýir staðir sem þarf að fylgjast með, meðal annars með tilliti til snjóflóðahættu vegna breytinga á byggðamynstri. Skriður hafa verið að aukast og kallað á aukna vöktun Veðurstofunnar. 

Fyrirséð er að verkefnum Veðurstofunnar muni fjölga, einkum í ljósi áhrifa loftslagsbreytinga í heiminum. Flóðahætta, sjávarflóðahætta sem og skriðuhætta eykst samfara þiðnun sífrera og hörfun jökla, aukinni úrkomuákefð og hækkandi sjávarstöðu.

Meiri samvinna og upplýsingamiðlun efld til almennings

Á síðustu árum hefur upplýsingamiðlun verið efld sem miðar að því að ná betur til viðbragðsaðila og almennings. Á hverjum degi eru haldnir samráðsfundir þar sem náttúruvársérfræðingar, veðurfræðingar og ofanflóðasérfræðingar taka stöðuna og ef ástæða þykir eru fleiri kallaðir að borðinu eins og fulltrúar almannavarna, Isavia, Vegagerðarinnar og fleiri sem hafa hagsmuna að gæta á hverjum tíma. Á þeim fundum er tekin ákvörðun um hvernig eigi að bregðast við aðstæðum næsta sólarhringinn ef til dæmis veður eru válynd. 

„Þetta hefur reynst vel og hefur hjálpað okkur að stilla saman strengi. Það er einstakt að hægt sé að kalla alla saman að borðinu og eiga í nánu samstarfi við almannavarnir. Þetta reynist gjarnan erfitt í mörgum stærri löndum,“ segir Ingvar og tekur fram að fámennið hjálpi alltaf. Kostirnir eru þeir að hægt sé að þróa og þroska þessa þjónustu sem tæki mun lengri tíma í stærri þjóðfélögum sem jafnvel væri hægt að aðlaga þeim stærri.  

Áskorun að ná til erlendra ferðamanna

Með aukinni ferðamennsku allan ársins hring fer fólk inn á staði þar sem engum datt i hug að fara áður. „Það er enn töluverð áskorun fyrir okkur að ná til ferðamanna. Sérstaklega erlendra ferðamanna,“ segir Ingvar. 

Skilti eru í Reynisfjöru sem vara ferðamenn við hættunum.
Skilti eru í Reynisfjöru sem vara ferðamenn við hættunum. mbl.is/Eggert

Kannanir sem hafa verið gerðar meðal erlendra ferðamanna sem ferðast um landið á veturna sýna að þeir hafa tekið eftir viðvörunum Veðurstofunnar en fara ekki endilega eftir þeim. Þeir eru gjarnan með snjallsímaforrit sem endurspegla ekki staðbundnar aðstæður og veðurspá og fara eftir þeim upplýsingum frekar en frá Veðurstofunni, að sögn Ingvars.

Ingvar bendir á að í þessum könnunum hafa ferðamenn óskað eftir fleiri vegaskiltum á afmörkuðum stöðum sem veita markvissari upplýsingar. Bent er á að þrátt fyrir upplýsingagjöf á skiltum, t.d. lokanir vega vegna ófærðar og skilta í Reynisfjöru sem vara við hættu á sjávarföllum, eru dæmi um að fólk virði þær ekki. Ingvar segir það miður að slíkt hendi. 

Erlendir ferðamenn treysta ekki jafn vel og Íslendingar

„Það er ekki sama traust sem erlendir ferðamenn bera til okkar og Íslendingar. Þetta er heilmikil áskorun að reyna að ná betur til þeirra,“ segir Ingvar og vísar til þjónustukönnunar Gallup sem sýnir að rúm 85% landsmanna segist bera mikið traust til Veðurstofu Íslands.   

„Við þurfum að bæta okkur í allri miðlun. Bæta vefsíðuna og koma með fleiri snjallsímalausnir sem geta náð til fleiri með markvissari hætti. Við köllum líka eftir samvinnu við atvinnulífið. Veðurstofan getur ekki gert allt. Ég er sannfærður um að það er fullt af viðskiptatækifærum fyrir einkaaðila um að nýta þessi gögn sem við erum með og miðla þeim áfram og með okkur,“ segir Ingvar. 

Óveður í aðsigi.
Óveður í aðsigi. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is