Enn leikur allt á reiðiskjálfi

Kort/Veðurstofa Íslands

Enn leikur allt á reiðiskjálfi á Norðausturlandi en 16 skjálftar sem eru tveir að stærð eða meira hafa riðið yfir Öxarfjörð og nágrenni frá miðnætti. Sá stærsti er 3,8 stig en hann varð klukkan 5:48 í morgun. Um 100 skjálftar hafa mælst á mælum Veðurstofu Íslands á þessu svæði frá miðnætti en klukkan 22:40 í gærkvöldi höfðu um 900 skjálftar mælst síðan hrinan hófst 23. mars.

„Ég er með skápa með glerhurðum. Þær byrjuðu að glamra í gær. Þess vegna vissi ég af þessu,“ segir Hólmfríður Halldórsdóttir, fyrrverandi starfsmaður Jarðskjálftaseturs á Kópaskeri, í samtali við Morgunblaðið.

Hólmfríður er einn fárra Kópaskersbúa sem upplifðu jarðskjálftann mikla 13. janúar 1976 og enn búa á staðnum. Stóri skjálftinn mældist 6,4 að stærð og skjálftar sem komu í kjölfarið höfðu mikil áhrif á Kópaskeri og í nágrenni. Miklar skemmdur urðu á mannvirkjum. „Það fá einhverjir kipp þegar þeir finna jarðskjálfta og líður ekki vel. Mér finnst þetta ekkert mál, það þarf svo mikið svo ég finni skjálfta,“ segir Hólmfríður um áhrif skjálftahrinunnar núna á íbúa. „Það er ekkert óvenjulegt að það komi hrinur hér.“

 Setrið var áfallahjálpin

Hólmfríður tók þátt í að koma upp jarðskjálftasetri á Kópaskeri til að miðla upplýsingum um náttúruhamfarirnar 1976 og sögum um upplifun fólks af þeim. „Ég held að þetta hafi verið áfallahjálp fyrir fólkið. Þá var ekki búið að finna upp áfallahjálp og fólk þurfti að sjá um sig sjálft. Ég man að kona sagði við mig þegar við vorum að opna: Ætlið þið virkilega að fara að rifja upp þessar hörmungar? En hún kom með alla sína gesti í setrið. Það sýnir hvaða áhrif þetta hafði,“ segir Hólmfríður.

Sá stærsti í hrinunni 4,2 stig

„Jarðskjálftahrinan sem staðið hefur yfir í Öxarfirði síðan á laugardag 23. mars stendur enn yfir og hefur fjöldi skjálfta aukist í dag. Jarðskjálftarnir eru áfram á svipuðum slóðum eða um 6 km suðvestur af Kópaskeri. Klukkan 20:30 í kvöld, 27. mars, mældist stærsti skjálfti hrinunnar hingað til 4,2 að stærð. Hálfri mínútu síðar varð annar skjálfti 3,3 að stærð. Rúmri klukkustund síðar eða kl. 21:47 og 21:49 mældust skjálftar af stærð 3,3 og 3,2.

Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að íbúar á Kópaskeri og í Kelduhverfi hafi fundið stærstu skjálftana. Fjöldi minni eftirskjálfta mælist nú í kjölfar þessara skjálfta. Í dag hafa hátt í 500 skjálftar mælst á svæðinu og í heildina rúmlega 900 skjálftar síðan hrinan hófst 23. mars. Jarðskjálftahrinur eru algengar á svæðinu en það tilheyrir Tjörnesbrotabeltinu,“ segir á vef Veðurstofunnar í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert