Tilboð í tvær vikur

Farþegar sem áttu bókað far með WOW air geta nú …
Farþegar sem áttu bókað far með WOW air geta nú keypt fargjöld af Icelandair á sérstökum kjörum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérstök afsláttarfargjöld fyrir farþega sem áttu bókað með WOW air verða í gildi hjá Icelandair næstu tvær vikurnar, að því er fram kemur í pósti forstjóra Icelandair, Boga Nils Bogasonar, til starfsfólks. 

„Í ljósi stöðunnar mun nú reyna mikið á okkur og það má búast við álagi á alla starfsmenn í dag og næstu daga. Nú er tíminn til að sýna okkar bestu hliðar, auðmýkt og skilning á aðstæðum, góða þjónustulund og vinsemd í garð farþega. Viðbragðsáætlun okkar hefur nú verið virkjuð til að aðstoða flugfarþega og áhafnir að komast heim.

Við höfum sett upp sérstök afsláttarfargjöld á almennu farrými til og frá ákveðnum áfangastöðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Þessi fargjöld verða í boði næstu tvær vikurnar fyrir farþega sem áttu bókað með WOW frá 28. mars til 11. apríl. Farþegar geta haft samband við okkur í gegnum síma eða samfélagsmiðla og þurfa að framvísa WOW air-flugmiða við bókun. Við höfum einnig ákveðið að aðstoða áhafnir sem voru að störfum erlendis til að komast til síns heima þeim að kostnaðarlausu.

Allar upplýsingar munu koma fram á sérstakri síðu www.icelandair.is/getmehome

Það er áskorun að takast á við þetta verkefni þar sem páskarnir eru fram undan og því eru flestar vélar þétt bókaðar á okkar helstu flugleiðum. Eins og ég sagði fyrr í morgun þá er reynslan okkar styrkur og hef ég fulla trú á okkar getu til að leysa verkefnið,“ segir í pósti sem Bogi Nils skrifar samstarfsfólki í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert