Kvartanir ekki teknar alvarlega?

mbl.is/Hjörtur

Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, segir að Símon Sigvaldason dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hafi með ummælum sínum í Ríkisútvarpinu í gær gefið sterka vísbendingu um að dómstóllinn taki ekki alvarlega aðfinnslur fjögurra kröfuhafa um störf Sveins Andra Sveinssonar, sem skiptastjóra þrotabús EK1923.

Áslaug Björgvinsdóttir lögmaður segir dómstjóra hafa tekið afstöðu í aðfinnslumáli …
Áslaug Björgvinsdóttir lögmaður segir dómstjóra hafa tekið afstöðu í aðfinnslumáli með því að skipa Svein Andra skiptastjóra yfir þrotabúi WOW air. Ljósmynd/Saga Sig

Skipun Sveins Andra sem skiptastjóra þrotabús WOW air hefur verið umdeild í ljósi nefndra aðfinnsla. Kvartanir Mjólkursamssölunnar, Sláturfélags Suðurlands, lögmannsstofunnar BBA Legal og Stjörnunnar ehf. um störf Sveins Andra eru á þá leið að hann hafi ekki upplýst kröfuhafa um mikinn tilfallinn kostnað. Félögin sögðu „með ólíkindum út í hversu mikinn kostnað er búið að leggja án samráðs við kröfuhafa.“ Sveinn tekur 49.600 krónur á tímann í laun.

Dómstjórinn sagði í viðtali um skipun Sveins Andra í gær að „varðandi stór þrotabú séu valdir þeir, sem áður hafi leyst úr stórum búum, og að þeir hafi sýnt að þeir geti tekist á við svo viðamikið og flókið verkefni.“ Einnig sagði hann að „oft sé erfitt samband milli skiptastjóra og fyrrverandi fyrirsvarsmanns félags, þ.e.a.s. þrotamanns. Því beini þrotamenn oft kvörtunum til héraðsdóms.“ Símon sagðist hafa ákveðið að þessar kvartanir gerðu ekki að verkum að Sveinn Andri yrði útilokaður frá störfum skiptastjóra.

Sterk vísbending fyrirfram um afstöðu dómsins

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ekki enn skorið úr um hvort þessar kvartanir eru réttmætar en með framangreindum ummælum segir Áslaug dómstjórann gefa sterka vísbendingu um afstöðu dómsins til umræddra kvartananna og raunar kvartana yfir skiptastjórum almennt til dómsins. Þessi ummæli dómstjórans geti virkað þannig út á við, og ekki síst á þá sem hafa kvartað undan störfum Sveins, að þegar sé búið að taka afstöðu til starfshátta hans og að dómstjórinn telji kvartanir sem liggja fyrir ekki gefa tilefni til alvarlegra aðfinnslna. Ummælin hafi aukið vægi þar sem dómstjóri eigi í hlut, segir Áslaug enn fremur.

Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, t.h.
Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, t.h. mbl.is/Golli

Áslaug var héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur 2010-2015 og framkvæmdastjóri Dómstólaráðs 1998-2000. Hún bendir á að ógagnsæi ríki hjá dómstólum um skipan skiptastjóra og eftirlit dómstóla með þeim. Ýmsir finni að störfum ýmissa skiptastjóra eins og dómstjórinn nefni en afdrif slíkra kvartana, s.s. hvort dómurinn finni að störfum skiptastjóra eða víki þeim úr starfi séu ekki birt opinberlega ólíkt því sem gildir um önnur mál fyrir dómstólum.  Auk þess liggi engir formlegir verkferlar fyrir um val á dómstóla á skiptastjórum. Löngu sé tímabært að endurskoða löggjöf um val á skipstjórum og eftirlit með þeim. Núverandi fyrirkomulag njóti ekki trausts, hvorki kröfuhafa né þrotamanna sjálfra, segir Áslaug.

Símon sagði í viðtalinu við RÚV að engar skráðar reglur væru fyrir hendi um val á skiptastjórum. Miðað sé við „ákveðin grunnsjónarmið.“ Ekki hefur náðst í Svein Andra Sveinsson vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður var sakaður um ógagnsæi í störfum …
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður var sakaður um ógagnsæi í störfum sínum í öðru þrotabúi. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert