Flókið ferli að afhenda flugvélarnar

Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra WOW air, segir afhendingu flugvélaflotans …
Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra WOW air, segir afhendingu flugvélaflotans vera langt komna. mbl.is/Árni Sæberg

 „Fólk er  búið að vera að hafa óformlega samband og við höfum bent því á að lýsa kröfum í þennan formlega farveg,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og annar tveggja skiptastjóra í þrotabúi WOW air, í samtali við mbl.is.

Innköllun vegna gjaldþrots WOW air var birt í Lögbirtingablaðinu í dag, en þar er kröfuhöfum gefinn frestur til mánaðamótanna júlí og ágúst til að gera kröfu í búið.

Sveinn Andri segir skiptastjórum hafa borist fyrirspurnir undanfarna daga, sem sé eðlilegt þar sem kröfuhafar séu margir að velta fyrir sér hvert þeir eigi að snúa sér. „Svo þegar um er að ræða svona stórt félag sem er líka í starfsemi erlendis þurfa skiptastjórar að senda á þekkta erlenda kröfuhafa og það er verið að vinna í því núna,“ segir hann.

Eins hafi innköllunin verið birt í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, líkt og lög heimili, þar sem útbreiðsla Lögbirtingablaðsins sé takmörkuð.

Spurður hvort hann viti hve margir stóru erlendu kröfuhafarnir séu kveðst Sveinn Andri vita að þeir séu margir, en ekki sé hægt að nefna á þessum tímapunkti hversu margir. „Starfsmaður þrotabúsins er að vinna í því núna að senda út á alla þekkta kröfuhafa.“

Skiptastjórarnir eru hins vegar komnir með nokkuð góða mynd af eignum búsins, en munu ekkert gefa upp um það á næstunni. Haft var eftir Þorsteini Einarssyni, sem einnig er skiptastjóri í þrotabúinu, á mánudag að þeim hefði borist fjöldi fyrirspurna um kaup á eignum úr þrotabúinu með það fyrir augum að nýta þær við nýjan flugrekstur.

Tvær af flugvélum WOW air voru á Keflavíkurflugvelli er flugfélagið …
Tvær af flugvélum WOW air voru á Keflavíkurflugvelli er flugfélagið fór í þrot og var önnur þeirra kyrrsett að kröfu Isavia. mbl.is/​Hari

Vélarnar afhentar í gegnum viðhaldsbækurnar

Tveir starfsmenn hafa verið ráðnir til þrotabúsins, annars vegar framkvæmdastjóri sem sér um daglegan rekstur á búinu og svo starfsmaður sem sér um tæknileg atriði og útfærslu er kemur til að mynda að afhendingu flugvélanna, sem Sveinn Andri segir vera flókið ferli.

Flugvélafloti WOW air var allur byggður upp á leiguvélum sem staðsettar voru víða um heim er flugfélagið fór í þrot. Viðhaldsbækur vélanna voru hins vegar í vörslu WOW air og fer afhending vélanna til leigusala fram með afhendingu þeirra. „Það má ekki setja vél í loftið nema viðhaldsbækur séu „up to date“ og ef ein blaðsíða týnist úr nákvæmum skráningum þá getur það þýtt að kaupa þurfi varahluti fyrir milljónir dollara,“ útskýrir Sveinn Andri.

Unnið hefur verið að því undanfarið að afhenda vélarnar, en við afhendingu þarf að fylgja formlegu og nákvæmu ferli. „Við erum búin að vinna að því á fullu undanfarna daga,“ segir Sveinn Andri og kveður búið að afhenda flest það sem lýtur að vélunum. „Þannig að við erum bara að klára afhendingu á flugvélaflota félagsins.“

Vélin í Keflavík mál leigusalans og Isavia

Starfsmaður þrotabúsins sem séð hefur um afhendingu heldur einnig utan um þá lausamuni sem tilheyra WOW air í vélunum og sér um að þeir séu teknir úr þeim, auk þess að halda utan um þau verðmæti sem felast í varahlutum vélanna. „Það er allt mjög dýrt í flugvélum,“ bætir hann við.

Tvær af flugvélum WOW air voru á Keflavíkurflugvelli er flugfélagið fór í þrot og var önnur þeirra kyrrsett að kröfu Isavia. Sveinn Andri segir þá kröfu ekki koma þrotabúinu við. „Það er mál sem viðkomandi leigusali á við Isavia,“ segir hann.

Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir gagnrýndu í síðustu viku skipun Sveins Andra sem skiptastjóra í þrotabú WOW air. Sveinn Andri kveðst ekki munu tjá sig um það. „Héraðsdómur óskaði eftir því að ég tæki að mér þetta verkefni, sem að ég gerði. Þegar dómstólar óska eftir því við lögmenn að þeir taki við skipun í opinber sýslunarstörf eru lögmenn nú yfirleitt vanir að taka því, nema það séu einhver tengsl við þrotamann sem valdi vanhæfi. Þannig að ég tek þessu bara eins og hverju öðru verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert