„Ættu að biðja okkur afsökunar“

Vilhjálmur er sáttur með það skref sem stigið er í …
Vilhjálmur er sáttur með það skref sem stigið er í afnámi verðtryggingar. mbl.is/​Hari

„Ég held að margir leiðarahöfundar í íslensku samfélagi sem hafa gagnrýnt nýja forystu í verkalýðshreyfingunni harðlega að undanförnu, sagt okkur óábyrg og jafnvel að stefna efnahagslífinu í hættu, ættu nú eiginlega að biðja okkur afsökunar,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, að kynningu aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á nýundirrituðum kjarasamningum lokinni.

„Kjarasamningarnir byggjast á því að við sköpum hér skilyrði til vaxtalækkunar og það er mjög mikilvægt að Seðlabankinn skoði vel og rækilega okkar framlag til þess að stuðla hér að lægri verðbólgu og lækkun vaxta. Það er alveg ljóst að lækkun vaxta mun ekki bara koma heimilunum og almenningi til góða, heldur líka atvinnulífinu til að takast á við að efla sig.“

Ljóst er að um tímamótakjarasamninga er að ræða og segir Vilhjálmur að þegar samningsaðilar hafi orðið þess áskynja að efnahagslífið yrði fyrir verulegu höggi vegna gjaldþrots WOW air hafi komist skriður á málin. 

Gjaldþrot WOW air vendipunktur í viðræðunum

„Við ákváðum á þeirri stundu að taka tillit til þess höggs sem efnahagslífið var að verða fyrir, en finna jafnframt leiðir til þess að fanga viðfangsefnið. Þannig semjum við með hóflegum hætti í byrjun samnings og tökum upp þá nýbreytni að semja um í krónutölum en ekki prósentum, sem eru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis. Við notum það svigrúm sem atvinnulífið telur sig hafa um þessar mundir til að lyfta þeim sem eru á lágmarkstöxtum eins langt upp og hægt er í þessari lotu. Síðan er það hagvaxtaraukinn sem miðast við hagvöxt á mann og er birtur af Hagstofunni einu sinni á ári. Hann mun gagnast okkur verulega þegar atvinnulífið tekur kipp og hagvöxtur eykst.“

Vilhjálmur segir ljóst að aðkoma stjórnvalda að samningunum sé umtalsverð og að í raun sé um þríhliða samning aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda að ræða. „Við höfum átt gott samstarf með stjórnvöldum þó að stundum hafi hvesst, ef þannig má að orði komist. Eins og frægt var var ég ósáttur á einum fundi en við leystum öll þessi mál að lokum.“

Fyrsti áfanginn í „slátrun“ verðtryggingarinnar

„Ég er nokkuð sáttur með það sem lýtur að verðtryggingunni þó að ég hefði sannarlega viljað stíga skrefið til fulls, en það er alveg ljóst að það skref sem er stigið núna til afnáms er langstærsta skref sem stigið hefur verið síðan verðtrygging var sett á fjárskuldbindingar heimilanna. Við erum hvergi nærri hætt í að slátra henni, þetta er fyrsti áfanginn í því.“

Að lokum sagði Vilhjálmur að eitt sem væri öruggt væri að baráttunni fyrir kjörum launafólks, alþýðunnar og íslenskra heimila lyki aldrei. „Það koma kjarasamningar eftir þessa kjarasamninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert