Mikil sprunga í Krýsuvíkurbjargi

Hluti Krýsuvíkurbjargs er illa sprungið og getur sá hluti bjargsins …
Hluti Krýsuvíkurbjargs er illa sprungið og getur sá hluti bjargsins hrunið í sjóinn með skömmum fyrirvara. Ljósmynd/Ellert Grétarsson

„Þessi standur sem er að losna núna, […] hann stendur orðið um metra frá brún og skagar út. Ég hef komið þarna að fólki sem hefur verið að stökkva á þennan stein til þess að láta taka myndir af sér. Hann gæti hrunið núna eða eftir 20 ár,“ segir Óskar Sævarsson landvörður í samtali við mbl.is um hluta Krýsuvíkurbjargs á sunnanverðu Reykjanesi sem virðist að hruni komið.

Sá hluti bjargsins sem um ræðir er við Rauðuskriðu sem er skammt austan Heiðnabergs, en þar er jafnframt vinsælasti útsýnisstaðurinn á bjarginu.

„Þetta er eins og Krýsuvíkurbergið víða er, það er illa sprungið. Þessar sprungur eru langar og eflaust mjög djúpar, stór hluti þeirra á brúninni sjálfri er hulinn gróðri,“ útskýrir Óskar.

„Það hrynur úr berginu á hverju einasta ári, þessi bjargbrún er ekki eins og við viljum hafa hana,“ segir hann og vísar til þess að svipað ástand sé á mörgum stöðum á ellefu kílómetra svæði.

Talið er að þessi hluti hangi nú um metra frá …
Talið er að þessi hluti hangi nú um metra frá brún bjargsins. Ljósmynd/Ellert Grétarsson

Spurður hvort hann mæli gegn því að fólk leggi í að standa á þessum hluta bjargsins svarar hann því játandi. „Þetta segir sig nú kannski sjálft að þetta sé fífldirfska,“ segir landvörðurinn og tekur fram að erfitt er að koma í veg fyrir slíkt á ellefu kílómetra bjargbrún. „Það er þarna stórt og mikið skilti sem komið var upp í haust.“

Nýjar sprungur eftir jarðskjálfta

Reykjanesfólkvangur í samstarfi við Umhverfisstofnun fór í aðgerðir á svæðinu vegna öryggismála síðasta haust. „Það er í raun bara ein aðkoma sem slík og 99% koma á þeim stað og þar erum við búin að setja skilti og keðju á bjargbrúnina,“ segir Óskar.

Jarðskjálftar eru algengir á Reykjanesinu og ekki síður á þessu svæði, en nýjar sprungur sjást oftast eftir slíka skjálfta, að sögn Óskars sem segir jafnframt að algengt er að hann verði var við að fallið hafi einhverjir rúmmetrar af efni úr bjarginu í kjölfar jarðskjálfta.

Krýsuvíkurbjarg er nær ellefu kílómetrar og eru víða sprungur.
Krýsuvíkurbjarg er nær ellefu kílómetrar og eru víða sprungur. Ljósmynd/Ellert Grétarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert