Viðurkenna lánakjör sem kjaramál

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, fagnar tillögum að úrræðum …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, fagnar tillögum að úrræðum á húsnæðismarkaði fyrir tekjulægri hópa og ungt fólk. Mynd/Samsett

„Við eigum eftir að grannskoða þetta, en við fyrstu sýn lítur þetta bara vel út. Í þessum tillögum eru tekin skref til þess að taka á þessari skelfilegu stöðu sem er á húnæðismarkaði,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, í samtali við mbl.is um tillögur starfshóps félagsmálaráðherra um aðgerðir í húsnæðismálum.

Ásthildur segir tillögurnar vissulega fagnaðarefni af mörgu leiti, en enn sé mikið eftir sem þurfi að skoða. „Við erum ekki að segja að þessar tillögur séu gallalausar.“

Þá segir hún tillögurnar til þess fallnar að „hjálpa þeim sem þegar eru komnir í vanda og svo vonandi um leið er verið að leggja betri grunn til framtíðar fyrir heimili landsins. Það er mjög jákvætt að það sé verið að gera eitthvað.“

Formaðurinn segir samtökin hafa fundað með starfshópnum og að hann hafi tekið upp eitt af helstu baráttumálum samtakana, að þeir sem komu illa út úr efnahagshruninu 2008 fái sömu aðstoð og nýir kaupendur. „Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.“

Mikill sigur

„Svo er bara stór sigur að afnám verðtryggingar sé virkilega komið á dagskrá,“ segir Ásthildur Lóa. „Það að stjórnmálaleiðtogar standi og tali um þetta sýnir að barátta síðustu tíu ára hefur skilað sér.“

Samhliða breyttri umræðu um verðtryggingu, segir formaðurinn fagnaðarefni að bæði í þessum tillögum og í nýgerðum lífskjarasamningi sé viðurkennt að lánakjör séu kjaramál. „Um þetta voru eiginlega samtökin stofnuð, að hér verði lánakjör með eðlilegum hætti.“

Krefjast rannsóknar

„Það þarf að fara fram rannsókn á því hvernig það gat gerst eftir hrun að 15 þúsund fjölskyldur misstu heimilin sín, vegna þess að það sem er að gerast á húsnæðismarkaði í dag er bein afleiðing af því,“ segir Ásthildur Lóa. „Þetta er fólkið sem er á leigumarkaði í dag, þess vegna hefur hann stækkað svona hratt,“ bætir hún við.

mbl.is

Bloggað um fréttina