„Djöfulleg staða“

Tveir mánuðir eru frá því að Jón Þröstur Jónsson hvarf …
Tveir mánuðir eru frá því að Jón Þröstur Jónsson hvarf sporlaust í Dublin á Írlandi. Bróðir Jóns Þrastar segir að óvissan sem fylgi hvarfi Jóns Þrastar hafi streituvaldandi áhrif á fjölskylduna, sem ætli þó ekki að gefast upp. Ljósmynd/Facebook

Tveir mánuðir eru liðnir frá hvarfi Jóns Þrastar Jónssonar í Dublin á Írlandi. Rannsókn málsins hefur lítið sem ekkert miðað áfram frá því að björgunarsveit kembdi leitarsvæði í borginni í byrjun mars og ábending barst um að Jón Þröstur hefði mögulega ferðast með leigubíl.

Fjölskylda Jóns Þrastar hefur verið með annan fótinn á Írlandi frá því að leitin að honum hófst og hyggst ætla að halda ótrauð áfram. „Við erum að reyna að skipuleggja okkur, skipta þessu niður eins og þarf,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, í samtali við mbl.is. Staðan sé hins vegar erfið þar sem lögreglan hefur engar nýjar upplýsingar að vinna úr.

„Við erum að stilla saman strengi og reyna að vinna í því að halda málinu gangandi og skipuleggja næstu skref. Það lítur út fyrir að það muni taka drjúgan tíma að leysast, þetta blessaða mál,“ segir Davíð.

Engu nær þrátt fyrir fjölda ábendinga

Síðast sást til Jóns Þrastar í Whitehall-hverf­inu klukk­an rétt rúm­lega ell­efu fyr­ir há­degi, laugardaginn 9. febrúar. Jón Þröst­ur lenti í borg­inni kvöldi áður en hann hvarf en hann ætlaði að taka þátt í pókermóti sem hófst á miðviku­deg­in­um í vik­unni á eft­ir.

Fjölskylda Jóns Þrastar hefur leitað skipulega í borginni og írsk björgunarsveit gerði ítarlega leit í byrjun mars. Lögreglunni hafa borist fjöldi ábendinga í tengslum við hvarfið og um miðjan síðasta mánuð sendu aðstandendur Jóns Þrastar ákall til írsku þjóðarinnar að hafa augun opin og dreifa myndum af Jóni Þresti í þeirri von að nýjar upplýsingar kynnu að berast. Þá komu bræður hann einnig fram í The Late Late show, vinsælasta spjallþætti á Írlandi, og Crimecall, þætti sem sérhæfir sig í reifun sakamála. Um miðjan mars lýsti alþjóðalögreglan Interpol eftir Jóni Þresti. Þrátt fyrir allar þessar aðgerðir er fjölskyldan engu nær um afdrif Jóns Þrastar.

Minni samskipti við lögreglu eftir því sem tímanum líður

Samskipti við írsku lögregluna hafa farið minnkandi eftir því sem tímanum líður en Davíð segir að samskiptin séu samt sem áður góð. „Við erum dugleg að minna á okkur og heyrum í þeim en auðvitað hefur það minnkað alveg töluvert, því miður, þeir hafa voða lítið til að vinna með, það er mín upplifun. Þeir eru stopp í þessu máli myndi ég halda.“

Varðandi næstu skref segir Davíð að erfitt sé að taka ákvarðanir um skipulega leit. Búið sé að kemba leitarsvæðið í Dublin og litlar sem engar upplýsingar um mögulegar ferðir Jóns Þrastar. „Við erum engu nær um hvar hann er eða gæti verið eða gæti hafa farið. Þetta er spurning um að bíða og vona að það komi einhverjar upplýsingar sem færa okkur nær en tíminn líður og þetta er snúin staða.“

Hvað hlutverk fjölskyldunnar varðar segir Davíð að mestu máli skipti að vera áfram sýnileg og að vona það besta. „En við erum með bakið upp við vegg ef ég á að segja alveg eins og er. Þetta er djöfulleg staða eins og hún er akkúrat í dag.“

Frá útskrift Davíðs Karls Wiium, bróður Jóns Þrastar. Með þeim …
Frá útskrift Davíðs Karls Wiium, bróður Jóns Þrastar. Með þeim á myndinni eru systur Jóns Þrastar: Þórunn og Anna og bróðir hans Daníel. Ljósmynd/Facebook

Þreyta og hræðsla tekur sinn toll

Davíð segir óvissuna sem fylgir hvarfi Jóns Þrastar hafa streituvaldandi áhrif á fjölskylduna. „Eftir því sem tíminn líður verður óvissan verri. En fjölskyldan hefur staðið mjög þétt saman og þetta hefur vafalaust eflt okkur og gert okkur nánari en þreytan og hræðslan sem er komin í mannskapinn tekur sinn toll.“

Fjölskyldan hittist reglulega, bæði hér heima og á Írlandi. „Við förum yfir stöðu mála og ætlum að gera það áfram. Það er bara vonandi að það fari að birta til í þessu, um leið og það gerist verður annað ferli sett í gang. Þangað til er þetta spurning um að skipuleggja sig vel, nota tímann og huga að okkar eigin heilsu líka, þetta er búið að taka mikið á, líkamlega og andlega,“ segir Davíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert