„Þurfum að geta rætt lögleiðingu“

Karl Steinar Valsson og Guðmundur Ingi Þóroddsson á fundinum í …
Karl Steinar Valsson og Guðmundur Ingi Þóroddsson á fundinum í dag. mbl.is/Hari

„Ég ætla ekki að mæla með kannabis. Það er hættulegt efni og veldur skaða,“ sagði Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi, þegar hann og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn voru spurðir hvort það ætti að afglæpavæða notkun kannabisefna.

Guðmundur og Karl Steinar héldu stutt erindi á hádegisfundi félags viðskipta- og hagfræðinga um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi frá hagrænu sjónarmiði. Að því loknu var opnað fyrir spurningar úr sal, þar sem þeir voru meðal annars spurðir út í afglæpavæðingu kannabisefna.

Guðmundur sagði að það þyrfti að forgangsraða og benti á að í fangelsum á Norðurlöndum væri horft fram hjá grasreykingum. 

„Ég er hlynntur afglæpavæðingu fyrir neysluskammta og við þurfum að geta rætt lögleiðingu kannabis,“ sagði Guðmundur.

Neysla mun aukast

„Ég hef verið alfarið mótfallinn því,“ sagði Karl Steinar. Hann sagði að ekki væru komin fram gögn sem sannfærðu hann um lögleiðingu kannabisefna og að það þyrfti að fylgjast vel með þróun á þeim stöðum þar sem efnin væru lögleg.

„Það mun auka neyslu og við þurfum að vera undirbúin,“ sagði Karl Steinar. Hann sagði Íslendingum oft tamt að stökkva á skyndilausnir án þess að mál hafi verið skoðuð til hlítar.

„Við sem samfélag þurfum að skoða þetta og þurfum að vera tilbúin að rökstyðja okkar leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert