Ógilda vörumerkjaskráningu Iceland

Iceland Foods Ltd. á eftir sem áður orð- og myndmerki …
Iceland Foods Ltd. á eftir sem áður orð- og myndmerki sitt, svokallað „lógó“, skráð í Evrópu og víðar og getur haldið áfram að stunda viðskipti undir nafninu. mbl.is/Hjörtur

Hugverkastofa Evrópusambandsins (EUIPO) hefur ógilt vörumerkjaskráningu bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu Iceland í Evrópusambandinu. Fyrirtækið hefur tvo mánuði til að áfrýja úrskurðinum.

Íslensk stjórnvöld, Íslandsstofa og Samtök atvinnulífsins grípu til til lagalegra aðgerða gegn Iceland Foods Ltd. fyrir þremur árum, vegna einka­leyfi keðjunn­ar á orðmerk­inu „Ice­land“ sem keðjan fékk árið 2014. Krafa Íslands var að þessi skráning Iceland Foods yrði ógilt, enda væri um þekkt landfræðilegt heiti að ræða og einnig að merkið Iceland væri almennt, sérkennalaust og hefði aldrei átt að fást skráð.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fagnar niðurstöðunni. Haft er eftir honum í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að niðurstaðan komi ekki á óvart þar sem það gangi „gegn almennri skynsemi að erlent fyrirtæki geti slegið eign sinni á nafn fullvalda ríkis eins og þarna hefur verið gert.“ Ráðherrann segir að um áfangasigur sé að ræða í afar þýðingarmiklu máli fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki.

Úrskurðurinn sem kveðinn var upp síðastliðinn föstudag er afgerandi en fallist er alfarið á kröfur Íslands. Skráning Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu Iceland hjá EUIPO er því ógilt í heild sinni.

Iceland Foods Ltd. á eftir sem áður orð- og myndmerki sitt, svokallað „lógó“, skráð í Evrópu og víðar og getur haldið áfram að stunda viðskipti undir nafninu. Frestur Iceland Foods til að vísa málinu til áfrýjunarnefndar EUIPO rennur út 5. júní nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert