Láti starfsfólk ekki gjalda fyrir

Félagsmenn Eflingar fyrir utan eitt hótela borgarinnar á verkfallsdag. Efling …
Félagsmenn Eflingar fyrir utan eitt hótela borgarinnar á verkfallsdag. Efling skorar á forsvarsmenn hótela og hópbifreiðafyrirtækja að láta starfsfólk ekki gjalda fyrir störf sín fyrir stéttarfélagið. mbl.is/Hari

Efling skorar á forsvarsmenn hótela og hópbifreiðafyrirtækja að láta starfsfólk ekki gjalda fyrir störf sín fyrir Eflingu í aðdraganda samningsgerðar, þar með talið í tengslum við verkföll. Þetta kemur fram í bréfi sem stéttarfélagið sendi forsvarsmönnum fyrirtækjanna.

Bendir Efling á að talsvert hafi verið um verkfallsbrot þá daga sem kom til verkfalla. Eins hafi félaginu borist „fregnir af ýmsum óeðlilegum þrýstingi einstakra atvinnurekenda í garð starfsmanna. Má þar nefna loforð um greiðslur, hótanir um frádrátt greiðslna og að starfsmenn hafi verið látnir gjalda á annan hátt fyrir þátttöku í verkföllum,“ að því er segir í tilkynningu Eflingar. 

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur kveði á um að atvinnurekendum sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á þátttöku starfsmanna í starfi stéttarfélaga, þar með talið verkföllum. Brot á þessum lögum varði sektum og skaðabótum. Eins sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá gjalda þeirra starfa á annan hátt. Þá sé í nýundirrituðum kjarasamningi að finna nýja bókun um vernd þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög.

„Því miður hefur reynsla undanfarinna vikna kennt okkur að sumir atvinnurekendur eru í hefndarhug gegn starfsfólki sínu. Það er allt of algengt að atvinnurekendur telji sig hafa heimildir til að refsa starfsfólki fyrir þátttöku í starfi stéttarfélags, til dæmis í verkfallsvörslu eða að hafa komið fram opinberlega og tjáð sig um aðstæður á sínum vinnustað,“ er haft eftir Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Eflingar, í tilkynningunni. „Einnig höfum við séð dæmi um eins konar hóprefsingar, svo sem óheimilan launafrádrátt hjá Icelandair Hotels. Skilaboð okkar til atvinnurekenda eru: Nú er mál að linni. Virðið réttindi starfsfólks,“ sagði Viðar.

Í bréfinu, sem sent var fyrr í vikunni, er skorað á atvinnurekendur að virða friðarskylduna til fulls. Mikilvægt sé að sáttin sé virt og Efling muni bregðast við af fullri hörku verði þess vart að atvinnurekendur beini með óeðlilegum hætti spjótum sínum gegn starfsmönnum vegna nýlokinna átaka á vinnumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert