Þreytandi að vagga fram og til baka

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

„Ástandið hérna er frekar rólegt, enginn gauragangur. Hins vegar er voðalega þreytandi að sitja hérna og vagga fram og til baka,“ segir Oddur Gunnar Jónsson við mbl.is. Hann hefur ásamt fleirum setið fastur í flugvél úti á Keflavíkurflugvelli síðan um miðjan dag.

Oddur og eiginkona hans, Sigurlaug Einarsdóttur, komu með vél Icelandair frá Kaupmannahöfn en vélin lenti í Keflavík klukkan 15:09. Isavia þurfti að taka allar landgöngubrýr úr notkun klukkan tvö í dag vegna vindhraða og hafa Oddur, Sigurlaug og aðrir farþegar setið sem fastast í rúma fjóra og hálfan tíma.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að vindhraði verði að vera undir 50 hnútum, jafngildi um 25 m/s, til að landgöngubrýr verði teknar aftur í notkun.

Hann sagði enn fremur að Icelandair ætlaði að nota stigabíl til að hleypa fólki frá borði en ljóst væri að það tefði flutning fólks frá borði.

„Flugstjórinn var að tilkynna rétt í þessu að það sé verið að vinna í málinu,“ segir Oddur sem vonast til þess að komast út úr flugvélinni sem fyrst en hljómar þó mjög rólegur yfir ástandinu og segir starfsfólk standa sig vel.

„Það eru óþolinmóðir krakkar hérna,“ segir Oddur. Hann bendir á það sé ekki skemmtilegt fyrir Sigurlaugu að sitja svona lengi en hún er nýkomin úr aðgerð. Spurður hvort einhver í flugvélinni sé æstari en hann svarar hann:

„Það var einhver að æsa sig smá áðan en það er auðvitað hálffúlt að þurfa að sitja svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert