Allt að 1.400 kr. verðmunur á páskaeggjum

Ódýrustu páskaeggin í ár má finna í Bónus en dýrust …
Ódýrustu páskaeggin í ár má finna í Bónus en dýrust eru þau í Super 1 og Iceland. mbl.is/Styrmir Kári

Allt að 67% verðmunur var á páskaeggjum milli verslana í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem gerð var á fimmtudag. Munurinn á hæsta og lægsta verði nam oft mörg hundruð krónum og mest 1.400 krónum á einu og sama páskaegginu.

Ódýrust í Bónus en dýrust í Super 1 og Iceland

Bónus var oftast með lægstu verðin á páskaeggjum eða í 28 af 30 tilfellum. Super 1 var oftast með hæstu verðin eða í 13 tilfellum af 30 en Iceland fylgir fast á eftir með hæstu verðin í 11 tilfellum. Lítið úrval var af páskaeggjum í Kjörbúðinni en einugnis 7 páskaegg af 30 voru fáanleg í búðinni. Þá voru engin páskaegg voru til í Costco.

Mestur var verðmunurinn á litlum rís páskaeggjum frá Freyju, fjórum saman í pakka eða 67% en lægst var verðið í Bónus, 359 kr. en hæst í Hagkaup 599 kr. Í krónum talið var verðmunurinn mestur á Nóa Siríus risa páskaeggi, 1.401 kr. eða 25%. Lægst var verðið í Bónus 5.598 kr. en hæst var verðið 6.999 kr. í Super 1.

Allt að 170% verðmunur á kjöti

Verð á matvöru sem er líkleg til að rata á borð landsmanna yfir páskana var einnig skoðað. Mikill verðmunur reyndist í mörgum matvöruflokkum, þá sérstaklega á kjöti, grænmeti og ávöxtum en einnig á þurrvöru og drykkjarvörum.

Allt að 170% verðmunur var á nautgripahakki, 140% verðmunur á hamborgarhrygg, 180% verðmunur á jarðaberjum og 152% verðmunur á sætum kartöflum. 80% verðmunur var á fjölskylduís frá Kjörís, 77% verðmunur á appelsíni, 57% verðmunur á snakki og 65% verðmunur á Cheeriosi.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 69 tilfellum af 117 en Iceland oftast með það hæsta eða í 48 tilfellum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert