„Það kalla ég ómerkilegt lýðskrum“

Þorsteinn Víglundsson sagði orðræðu Miðflokksmanna popúlíska í Þingvöllum á K100.
Þorsteinn Víglundsson sagði orðræðu Miðflokksmanna popúlíska í Þingvöllum á K100. Árni Sæberg

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði orðræðu Miðflokksmanna um þriðja orkupakkann „ómerkilegt lýðskrum“ í þjóðmálaþættinum Þingvöllum á K100 í morgun. Hann tókst á við Unu Maríu Óskarsdóttur, þingkonu Miðflokksins, um þriðja orkupakkann.

Þorsteinn kvaðst líta það alvarlegum augum „þegar þingmenn, fólk sem er á launum við að kynna sér þessi mál af kostgæfni, fer fram með rök sem er ekki hægt að styðja með einum einustu tilvísunum í regluverk eða staðreyndir málsins. Þá er það bara ekkert annað en ómerkilegt lýðskrum,“ sagði hann.

Honum kveðst ekki hafa þótt léttvægt að sitja undir ásökunum Miðflokksmanna um að vera að brjóta í bága við stjórnarskrána, „sérstaklega þar sem þegar öllu er á botninn hvolft stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra sem hafa haldið upp því sem ég myndi segja að sé harðasti hræðsluáróðurinn.“

„Þorsteinn er pirraður og segir að Miðflokkurinn sé að stunda populískan málflutning eða hræðsluáróður. Ég vísa því algerlega til föðurhúsanna. Við skulum fara yfir málið eins og það er,“ sagði Una María. „1992 var búinn til lítill krúttlegur samstarfssamningur sem vissulega hefur skipt Íslendinga mjög miklu máli. En síðan þá hafa verið innleiddar hér tilskipanir sem Íslendingar hafa ekki haft tök á að hafa áhrif á. Þær hafa verið innleiddar og svo hefur komið í ljós að þær hafa ekki verið hagstæðar okkur, eins og nýlegur dómur um hráa kjötið sýnir. Viljum við ekki styðja okkar íslenska landbúnað, styðja og vernda hann og okkar íslensku orku?“ spurði hún.

Una María Óskarsdóttir þingkona Miðflokksmanna er komin í stað Gunnars …
Una María Óskarsdóttir þingkona Miðflokksmanna er komin í stað Gunnars Braga á þingi. Ernir Eyjólfsson

Sama hvað einhver grasrót í Sjálfstæðisflokknum segir

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem var einnig gestur þáttarins, telur að sæstrengsvinkillinn á umræðunni sé ekki í farvatninu. Umræða um yfirráð annarra yfir auðlindum Íslendinga sé skökk, því ekkert í gögnum sem liggi fyrir bendi til að slíkt vofi yfir.

Hann var spurður út í efasemdir grasróta ríkisstjórnaflokkanna, einkum Sjálfstæðisflokksins. „Hvernig heldurðu að þetta fari?“ spurði Björt Brynjar.

„Við verðum auðvitað að taka afstöðu eftir því sem við teljum hagsmunum Íslendinga best borgið, sama hvað einhver grasrót í Sjálfstæðisflokknum segir,“ sagði Brynjar. „Grasrótin er náttúrulega klofin líka. Ég segi bara: okkar skylda er að taka afstöðu til mála eftir því sem hagsmunum þjóðarinnar er best borgið. Alveg sama í hvaða flokki ég er í og hve stór grasrótin er.“

„Ég þarf að sannfæra grasrótina hins vegar. Og ég tel mig geta náð sumum. En ég get ekki sannfært páfann um að Guð sé ekki til, rétt eins og ég get ekki sannfært suma um að þetta sé ágætt,“ sagði Brynjar.

Hér má hlusta á þáttinn frá því í morgun í heild sinni. 

mbl.is