Sjaldgæft að fá svo kröftugar lægðir í apríl

Veðurútlit um klukkan 18 annað kvöld, þriðjudaginn 16. apríl.
Veðurútlit um klukkan 18 annað kvöld, þriðjudaginn 16. apríl. Kort/Veðurstofa Íslands

„Þetta er ekkert ósvipað og það var á föstudaginn,“ segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur á vakt um lægðina sem nú nálgast landið. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á morgun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðarfjörð og miðhálendið.

Spáð er vaxandi suðaustanátt, 15-25 m/s og rigningu sunnan og vestan til á morgun, hvassast við fjöll, en heldur hægari vindur og þurrt norðaustanlands.

„Það er frekar sjaldgæft að fá svona kröftugar lægðir í apríl,“ segir Óli Þór og bætir við að ekki verði alveg jafn hvasst og í lægðinni á föstudag. „Þetta er þó alveg nógu hvasst og alveg nógu blautt.“ Þannig geti hætta verið á foktjóni sé fólk búið að setja út garðhúsgögn eða trampólín og eins er þeim sem eru á ferðinni bent á að hafa varann á. Von sé á hvössum vindhviðum sem geti náð allt að 40 m/s við Hafnarfjallið, undir Eyjafjöllum og á Kjalarnesi. 

Veðrið á mbl.is

Aflýsa þurfti flugi og fólk sat fast í vélum á Keflavíkurflugvelli um tíma á föstudagskvöld og segir Óli Þór veðrið á morgun koma að landinu með svipuðum hætti. „Þetta er þó fyrr á ferðinni,“ segir hann. „Upp úr miðnætti fer að hvessa jafnt og þétt og allra syðst nær þetta hámarki strax í fyrramálið. Þá fer hann að verða suðaustanstæðari og þá verður veðrið leiðinlegra hér suðvestanlands.“ Gera megi ráð fyrir að á suðvesturlandi nái veðrið hámarki um og upp úr hádegi og haldist hvasst fram yfir kvöldmat.

Á vissum stöðum á Snæfellsnesi geti svo orðið leiðinlega byljótt annað kvöld þegar vindurinn verður sunnanstæðari.

Búast má við rigningu með köflum, en eftir hádegi á morgun verður úrkoman líklega frekar samfelld. Óli Þór segir suðvesturhornið þó sleppa ágætlega við úrkomu í samanburði við suðausturhornið. „Þeir fá töluvert meiri úrkomu,“ segir hann og kveður allt orðið vel vatnssósa þar. Ekki þurfi því að koma á óvart falli einhverjar aurspýjur í þessu viðvarandi vatnsveðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert