Ríkið braut gegn Bjarna

Bjarni Ármannsson kaupsýslumaður.
Bjarni Ármannsson kaupsýslumaður. mbl.is/Eggert

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn mannréttindum Bjarna Ármannssonar kaupsýslumanns samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu með því að refsa honum í tvígang fyrir sama brot.

Fram kemur í dómi Mannréttindadómstólsins að ríkið hafi brotið gegn 4. grein mannréttindasáttmálans og er það dæmt til þess að greiða Bjarna 5 þúsund evrur í miskabætur (um 680 þúsund íslenskar krónur) og 29.800 evrur í málskostnað (rúmar 4 milljónir króna) auk vaxta og skatta innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu dómsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Bjarna í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi árið 2013 fyrir meiri háttar skattalagabrot. Viðurkenndi Bjarni fyrir dómi að hafa vantalið fjármagnstekjur sínar og sagði að um handvömm eða mistök hafi verið að ræða. Taldi hann enn fremur að málinu hefði átt að ljúka með úrskurði ríkisskattstjóra í því.

Hæstiréttur þyngdi síðan dóm Bjarna í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi. Var honum líkt og í héraðsdómi gert að greiða tæpar 36 milljónir króna í sekt í ríkissjóð. Brotið var ekki virt Bjarna til ásetnings og fram kom við meðferð málsins að hann hefði greitt að fullu opinber gjöld samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun auk álags.

Málinu var vísað til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að Bjarna hefði þegar verið gerð refsing með úrskurði ríkisskattstjóra. Bjarni fór fram á að fá sektargreiðsluna greidda til baka sem miskabætur. Dómstóllinn hafnaði því hins vegar á þeim forsendum að Bjarni hefði ekki sýnt fram á það fyrir dómi að hann hefði greitt sektina.

Bjarni fór einnig fram á rúmar 13 milljónir króna í málskostnað en honum voru sem fyrr segir dæmdar rúmar 4 milljónir króna.

Dómurinn er hliðstæður við dóm Mannréttindadómstólsins 2017 í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar kaupsýslumanns gegn íslenska ríkinu.

mbl.is