Fer eigin leiðir í veikindunum

Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í knattspyrnu.
Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í knattspyrnu. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

„Ég fann ekki neitt. Ég var í ofsalega fínum gír,“ sagði Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í knattspyrnu, í viðtali við Heimi Karlsson á Bylgjunni þar sem hann ræðir veikindi sín en hann greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Tveimur árum áður en hann greindist sagðist Atli hafa fengið dellu fyrir því að kynna sér sjúkdóminn og mögulegar lækningar við honum. Þegar hann greindist vildu læknar setja hann á hefðbundin krabbameinslyf en hann hafi viljað fara óhefðbundnar leiðir.

Þannig hefði hann prófað sig áfram með náttúrulyf. Hann hefði ekki viljað hefðbundin lyf sem væru að hans sögn „ofboðslegt eitur“ sem skerti lífsgæði fólks og veikti ónæmiskerfið. Með veikara ónæmiskerfi væri hann að eigin mati í verri stöðu til að takast á við veikindin.

Ætlar ekki að lúta höfði fyrir dauðanum

Atli sagði lækna hafa gefið sér einhverjar vikur eða mánuði en þremur árum síðar væri hann enn á lífi. Læknirinn hans hefði varað hann við að fara slíkar óhefðbundnar leiðir. Hann ætti eftir að koma skríðandi til baka „grenjandi á fjórum fótum vegna verkja“.

Erfiðast sagði Atli hafa verið að segja hans nánustu frá veikindunum og að hann ætlaði að fara eigin leiðir við að takast á við þau. Fjölskylda hans og vinir hafi hins vegar virt ákvörðun hans honum til mikillar gleði. Hann neitaði að gefast upp.

„Þegar maðurinn með ljáinn kemur ætla ég ekki að lúta höfði, ég ætla að fara beint í andlitið á honum.“

mbl.is