Opnað fyrir umferð að Dettifossi

Dettifoss er ein helsta náttúruperla Íslands, vatnsmesti foss Evrópu. Hann …
Dettifoss er ein helsta náttúruperla Íslands, vatnsmesti foss Evrópu. Hann er óaðgengilegur á veturna mbl.is/RAX

Búið er að opna á ný fyrir umferð að Dettifossi, en svæðinu var upphaflega lokað seinniparinn á mánudaginn vegna asahláku.

Opnað var á ný að morgni skírdags en sú opnun stóð ekki lengi yfir því í lok dagsins hafði bætt svo mikið í vatnsflauminn að loka þurfti á ný.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar segir að aðstæður séu engan veginn fullkomnar þrátt fyrir að opnað hafi verið fyrir umferð.

„Stígar eru á löngum köflum mjög blautir og sumstaðar þarf að víkja af hefðbundnum leiðum til að komast að fossinum. Þar er eins og alltaf mjög mikilvægt að fylgja leiðbeiningum sem landvörður hefur sett upp. Eins er rétt að ítreka það að að sumstaðar er smá klöngur á grjóti og því aðeins fyrir þá að fara um sem eru öruggir til gangs,“ segir á síðunni.

Seinnipartinn í gær var farið að flæða yfir hjáleiðina sem búið var að setja upp og því komust ferðamenn ekki nær fossinum en 400 metra frá bílastæðinu. Þá var eftir um 800 metra gangur að fossinum.

mbl.is